Haraldur Björnsson markvörður og fyrirliði Stjörnunnar var kampakátur eftir 3:2-sigur Stjörnunnar á HK í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í Kórnum í kvöld. Stjarnan komst í 2:0, HK jafnaði í 2:2 en Stjarnan átti lokaorðið því Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok.
„Mér líður frábærlega. Það er langt síðan við tókum þrjú stig síðast. Við vorum búnir að tapa tveimur í röð og það var ekki sérstök tilfinning þegar þeir jöfnuðu en strákarnir sýndu frábæran karakter, komu til baka og uppskáru þessi þrjú stig,“ sagði Haraldur með bros á vör.
Hann viðurkennir að erfitt gengi síðustu vikna hafi haft áhrif á liðið í seinni hálfleik er liðið missti niður tveggja marka forystu. „Þessir leikir að undanförnu sátu í okkur. Þegar þeir minnka muninn úr horni kemur smá skjálfti í menn og þeir æsast og fá allt með sér. Við náum sem betur fer að vinna okkur út úr því og taka þrjú stig, það var frábært.“
Haraldur segir lífið og tilveruna töluvert skemmtilegri eftir sætan sigur. „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Það er ótrúlegt hvað þrjú stig gera fyrir mann inn í næstu daga. Það er allt léttara og allt skemmtilegra. Það er miklu skemmtilegra að vakna morguninn eftir sigurleik þótt maður sofi ekki mikið. Þetta hefur allt að segja,“ sagði Haraldur kampakátur.