„Þetta var grautfúlt“

Róbert Orri fagnar markinu á Hlíðarenda í kvöld.
Róbert Orri fagnar markinu á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Íris

Hinn 18 ára gamli varnarmaður hjá Breiðabliki, Róbert Orri Þorkelsson, skoraði fyrir Blika á Hlíðarenda í Pepsí Max deildinni í kvöld og kom liðinu yfir. Breiðablik og Valur skildu jöfn 1:1.

„Þetta var grautfúlt miðað við hvernig við spiluðum og héldum skipulagi. Mér fannst við vera sterkari aðilinn í leiknum og þar af leiðandi grautfúlt að fá á sig jöfnunarmark undir lokin. Þessi deild er þannig að þrjú stig gera miklu meira en eitt. Ég hef fulla trú á liðinu og finnst við ekki vera síðri en Valur þótt það hafi ekki jafn vel hjá okkur í stigasöfnun og hjá þeim,“ sagði Róbert þegar mbl.is spjallaði við hann á Hlíðarenda. 

Hann les ekki of mikið í að Breiðablik hafi unnið Stjörnuna í síðustu umferð og fengið stig á Híðarenda í kvöld.  „Það koma leikir þar sem við náum að gera það sem lagt er upp með. Það gengur misvel. Mér fannst það ganga ágætlega í dag og við spiluðum nokkuð vel. Við lokuðum ágætlega á Valsarana en fengum á okkur aulamark í lokin þar sem við gerðum mistök í vörninni. Það er ekki nógu gott.“

Hvernig finnst Róberti leikmenn hafa höndlað leikjahrinuna að undanförnu? „Persónulega finnst mér miklu skemmtilegra þegar styttra er að milli leikja. Maður er í þessu til að spila leiki en ekki til að æfa. Það er langskemmtilegast að spila leikina.“

Höskuldur Gunnlaugsson leggur upp mark Blika í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson leggur upp mark Blika í kvöld. mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka