Tveir reknir út af á Hlíðarenda - Birkir bjargvættur

Birkir Már Sævarsson fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Val …
Birkir Már Sævarsson fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Val á 90. mínútu í kvöld. mbl.is/Íris

Valur og Breiðabliki gerðu 1:1 jafntefli í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld. Bakvörðurinn markheppni, Birkir Már Sævarsson, tryggði Val stig með marki á 90. mínútu. 

Valsarar eru langefstir á toppi deildarinnar með 41 stig eftir 17 leiki, níu stigum á undan FH, en Breiðablik er með 27 stig. 

Markalaust var að loknum fyrri hálfleik sem var tilþrifalítill. Mörkin létu bíða eftir sér en til tíðinda dró á 60. mínútu þegar Blikinn Davíð Ingvarsson fékk brottvísun fyrir tæklingu. Stimpingar urðu í kjölfarið og þá fékk Valsarinn Valgeir Lunddal Friðriksson gula spjaldið. Á 62. mínútu fékk hann annað gult spjald og þar með rautt þegar hann hékk aftan í Brynjólfi Willumssyni sem var kominn framhjá honum við endalínuna hægra megin. 

Varnarmaðurinn Róbert Orri Þorkelsson kom Breiðabliki yfir á 76. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Höskuldi Gunnlaugssyni frá hægri. 

Birkir Már Sævarsson kom til skjalanna á 90. mínútu og jafnaði með skoti af stuttu færi. Stakk sér inn á teiginn og tók á móti sendingu Birkis Heimissonar. Fjórða mark Birkis Más í síðustu þremur leikjum. 

Spennufall hjá Valsmönnum?

Miðað við fjörið í leikjum Vals að undanförnu þá gerði maður sér vonir um fjörugan leik í kvöld hjá þessum vel mönnuðu liðum. Það varð nú ekki raunin hvað varðar fjölda marktækifæri eða fjölda marka. Valur hafði skorað 4 eða 5 mörk í síðustu þremur leikjum gegn ÍA, Stjörnunni og FH.

Ef til vill hefur 4:1 sigurinn gegn FH í Kaplakrika kallað fram einhvers konar spennufall hjá Valsmönnum. Forskot liðsins í deildinni er orðið mjög myndarlegt og þá getur verið erfitt að halda einbeitingu. Valsmenn geta verið ánægðir með stigið í kvöld úr því sem komið var enda kom jöfnunarmarkið seint. Jafntefli á heimavelli gegn öflugu liði Breiðabliks setur ekki mikið strik í reikninginn hjá meistaraefnunum. 

Hornspyrna að marki Blika í kvöld.
Hornspyrna að marki Blika í kvöld. mbl.is/Íris

Mér fannst Blikar nálgast leikinn skynsamlega. Valsmenn hafa verið á mikilli siglingu og það er meira en að segja það að ná í stig á Hlíðarenda í því ljósi. Þeim gekk ágætlega að halda aftur af Valsmönnum og Patrick Pedersen fékk ekki mörg tækifæri fyrir framan mark Blika. Anton Ari Einarsson var öruggur í markinu en Valsmenn létu reyna á hann í horn- og aukaspyrnum með því að senda þær alveg inn að markinu í langflestum tilfellum. 

Sigurinn gegn Stjörnunni á fimmtudaginn hefur ábyggilega gefið leikmönnum Breiðabliks aukið sjálfstraust. Liðið bauð svo sem ekki upp á neina flugeldasýningu frekar en lið Vals en Blikar voru þó aðeins nokkrum mínútum frá því að ná í þrjú stig á Hlíðarenda. Mjög þétt er leikið í deildinni um þessar mundir og það hlýtur að hafa einhver áhrif á leikmenn í öllum liðum. Ekki í þeim skilningi að menn séu aðframkomnir, og bíði eftir plássi í Hveragerði, en það getur haft áhrif á frammistöðu. Menn verða aðeins seinni og þyngri á sér en vanalega þegar álagið er mikið. 

Stutt á milli brottvísana

Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, rak tvo leikmenn út af í kvöld. Almennt séð finnst mér menn gefa of oft spjöld í boltanum en mer sýndist Vilhjálmur Valvar taka réttar ákvarðanir út frá því hvernig reglurnar eru sem hann á að fara eftir. Davíð var of ákafur og tæklaði Hauk Pál sem var að spyrna boltanum fram völlinn. Davíð var of seinn og bauð hættunni heim.  Haukur dró ekki úr og hristist eins og lax sem David Beckham er nýbúinn að draga á land í Haffjarðará. En það hafði örugglega ekki nein áhrif á Vilhjálm Alvar enda sýndist mér hann vera vel staðsettur. Aðallega hallærislegt fyrir Hauk sjálfan í ljósi þess að hann var farinn að taka spretti mínútu síðar og er leikmaður sem er sjálfur með agressífan leikstíl. 

Ég átta mig ekki alveg nógu vel á því hvers vegna stimpingar urðu á milli leikmanna liðanna í framhaldi af brotinu. Valgeir Lunddal fékk í það minnsta gult spjald. Hann fékk aftur gult spjald þegar hann togaði í mann örstuttu síðar sem hann var búinn að missa framhjá sér. Þetta er örugglega hægt að skrifa á skort á reynslu hjá Valgeiri að láta reka sig út af í stöðunni ellefu á móti tíu. Sjálfsagt hefur hann ennþá verið eitthvað pirraður og mun læra af þessu. 

Kristinn Freyr Sigurðsson og Viktor Karl Einarsson berjast um boltann.
Kristinn Freyr Sigurðsson og Viktor Karl Einarsson berjast um boltann. mbl.is/Íris
Valur 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Viktor Karl Einarsson (Breiðablik) á skot sem er varið Fast skot af 30 metra færi en Hannes með allt á hreinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka