Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga, var verulega ósáttur við málalyktir í dag þegar lið hans beið lægri hlut fyrir Fylkismönnum á Meistaravöllum, en sigurmark Fylkismanna kom upp úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppbótartímanum. Hann segir að lið sitt hafi verið rænt stigunum með þeirri dómgæslu.
Rúnar segir aðspurður ekki hafa séð atvikið á vellinum sem leiddi til þess að vítið var dæmt, en hafði skoðað endursýningu á því. „Ég sá það ekki, það var bara einn maður sem var með arnaraugu, það er línuvörðurinn sem flaggaði þetta. Boltinn var löngu kominn í leik og hann er ennþá að horfa á Beiti og Ólaf Inga. Ég veit ekki hvað hann er að spá.“ segir Rúnar sem virtist einnig ósáttur við nokkrar af rangstöðuákvörðunum sama aðstoðardómara. „Hann flaggaði allan leikinn, hann tók eiginlega fleiri ákvarðanir en dómarinn.“
Rúnar segir að Ólafur Ingi Skúlason, leikmaður Fylkis, hafi haft rangt við þegar hann fiskaði vítið á Beiti. „Við vorum bara rændir hérna. Þeir fá gefins mark, þeir fá gefins rautt spjald og víti, sem er bara fíflagangur hjá Ólafi Inga, hann hagar sér eins og hálfviti inn á vellinum og fiskar rautt spjald á markmanninn okkar og hendir sér niður. Hann leitar með höfuðið í höndina á Beiti sem er löngu búinn að kasta út. Þetta er bara ljótt og við viljum ekki sjá þetta í fótbolta.“
Rúnar segir að sama skapi að KR-ingar hefðu átt að nýta sín færi betur manni fleiri, en Fylkisliðið hafi varist vel. „En að sama skapi var ekkert í stöðunni um að þeir væru að fara að vinna leikinn og taka þrjú stig. Við værum sáttari við eitt stig en ekkert, því við erum í Evrópubaráttunni við Fylki og þeir eru að gera vel í því sem þeir eru að gera. En þegar menn eru að svindla og ná sér í stig þannig er ég ekki sáttur.“
Lakt gengi Íslandsmeistaranna á heimavelli hefur vakið athygli og Rúnar var spurður hvort að liðið saknaði þess að spila fyrir framan áhangendur sína í KR-stúkunni. „Við söknum þeirra mjög mikið, en við ætlum ekki að vera með neinar afsakanir hvað það varðar. Auðvitað söknum við þeirra, þeir eru frábærir og það myndi hjálpa okkur heilmikið að vera með fulla stúku af fólki. En við ætlum ekki að afsaka okkur með því, við þurfum bara að klára okkar leiki, spila betur, skora fleiri mörk og nýta betur þau færi sem við fáum, við höfum ekki verið nægilega góðir í því og svo fáum við þessa tusku í restina.“