Víkingur úr Reykjavík og KA skiptu með sér stigunum í dag í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Leikurinn endaði 2:2 og máttu það heita sanngjörn úrslit. Með jafnteflinu hafa KA-menn jafnað met Breiðabliks yfir flest jafntefli í efstu deild.
Leikurinn var hluti af frestuðum leik úr 11. umferð deildarinnar en Víkingar voru fyrir hann í tíunda sæti deildarinnar en KA í því áttunda.
Ekki var langt liðið af leiknum þegar fyrsta færið leit dagsins ljós, en þá komst Helgi Guðjónsson í álitlegt skotfæri, en Aron Dagur Birnuson, sem fékk tækifærið í byrjunarliði KA eftir nokkra bið, sá við honum. Var það í fyrsta, en ekki síðasta skiptið sem Aron Dagur greip vel inn í sóknir Víkinga í dag.
Víkingar héldu áfram að sækja af krafti, og héldu norðanmenn sig meira til hlés og beittu skyndisóknum og löngum innköstum Mikkels Qvist til þess að ógna marki heimamanna. Upp úr einu slíku innkasti náðu KA-menn svo forystunni á 19. mínútu, þegar misheppnað skot endaði á kolli Guðmundar Steins Hafsteinssonar, sem gat breytt ferli boltans nægilega mikið til þess að Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, gæti ekki rönd við reist.
Þeir Guðmundur Steinn og Ingvar voru svo aftur í sviðsljósinu á 32. mínútu, en þá keyrði sóknarmaðurinn í Ingvar, sem var nánast kominn að miðlínu, við litlar vinsældir heimamanna. Guðmundur Steinn uppskar þar gult spjald og var baulað á hann í hvert sinn er Guðmundur kom nálægt knettinum eftir það.
Leikurinn var mestmegnis í járnum eftir það, eða allt þar til Kvame Quee jafnaði metin fyrir Víkinga á 43. mínútu, markamínútunni sjálfri, með góðu skoti rétt fyrir utan teig, sem flaug í háum boga yfir Aron Dag í markinu. Jafnt var því á metunum þegar liðin héldu til búningsherbergja.
Síðari hálfleikur hófst með miklu fjöri og skiptust liðin á að sækja. Voru Víkingar heldur aðgangsharðari, en þó áttu KA-menn góða spretti. Þannig átti Guðmundur Steinn í þrígang um miðbik hálfleiksins færi, en aðeins eitt þeirra rataði þó á markið, þar sem Ingvar var vandanum vaxinn.
Fátt leit út fyrir að liðin myndu ná að brjóta ísinn á ný, þegar KA-menn tóku allt í einu forystuna á ný. Var þar að verki Steinþór Freyr Þorsteinsson, sem skoraði með föstu skoti af vítateigslínunni eftir að boltinn hrökk fyrir hann á 74. mínútu.
Adam var þó ekki lengi í Paradís, því að heimamenn jöfnuðu innan við mínútu síðar. Fyrst fékk Atli Barkarson skot sem Aron Dagur varði í horn, en upp úr henni fékk Halldór Jón S. Þorsteinsson flott skot, sem Aron náði aftur að verja, að þessu sinni með fótunum. Enginn KA-maður var hins vegar til að hreinsa boltann frá, og þakkaði Helgi Guðjónsson því fyrir sig og jafnaði metin örugglega af markteig.
Bæði lið fengu svo strax fín færi til þess að ná forystunni, en eftir þennan fjörkipp á 74.-76. mínútu var mestallt púðrið úr leiknum. Liðin sættust því á skiptan hlut.
Þetta var tólfta jafntefli KA-manna í 18 leikjum, og hafa þeir því jafnað met Breiðabliks frá árinu 2014. Norðanmenn hafa nú fjóra leiki til þess að bæta metið, en líklega hafa þeir engan áhuga á því. Með jafnteflinu færðu þeir sig upp í sjöunda sæti deildarinnar, uppfyrir Skagamenn á markatölu, sem töpuðu á sama tíma fyrir FH.
Jafnteflið gerði hins vegar minna fyrir Víkinga, sem sitja áfram í 10. sæti deildarinnar, nú með 17 stig. Leikurinn endurspeglaði að miklu leyti vandamál Víkinga í sumar, þar sem þeir réðu ferðinni á löngum köflum, sérstaklega í fyrri hálfleik, en þurftu samt að sætta sig við að lenda tvisvar sinnum undir. Slíkt getur reynst dýrkeypt þegar öllu er á botninn hvolft, jafnvel þó að litlar líkur séu taldar á því að botnliðin tvö nái í skottið á þeim.