KA jafnaði met Breiðabliks

Kwame Quee skallar frá marki Víkinga í Fossvoginum í dag.
Kwame Quee skallar frá marki Víkinga í Fossvoginum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Vík­ing­ur úr Reykja­vík og KA skiptu með sér stig­un­um í dag í Pepsi Max-deild karla í knatt­spyrnu. Leik­ur­inn endaði 2:2 og máttu það heita sann­gjörn úr­slit. Með jafn­tefl­inu hafa KA-menn jafnað met Breiðabliks yfir flest jafn­tefli í efstu deild.

Leik­ur­inn var hluti af frestuðum leik úr 11. um­ferð deild­ar­inn­ar en Vík­ing­ar voru fyr­ir hann í tí­unda sæti deild­ar­inn­ar en KA í því átt­unda.

Ekki var langt liðið af leikn­um þegar fyrsta færið leit dags­ins ljós, en þá komst Helgi Guðjóns­son í álit­legt skot­færi, en Aron Dag­ur Birnu­son, sem fékk tæki­færið í byrj­un­arliði KA eft­ir nokkra bið, sá við hon­um. Var það í fyrsta, en ekki síðasta skiptið sem Aron Dag­ur greip vel inn í sókn­ir Vík­inga í dag.

Vík­ing­ar héldu áfram að sækja af krafti, og héldu norðan­menn sig meira til hlés og beittu skynd­isókn­um og löng­um inn­köst­um Mikk­els Qvist til þess að ógna marki heima­manna. Upp úr einu slíku innkasti náðu KA-menn svo for­yst­unni á 19. mín­útu, þegar mis­heppnað skot endaði á kolli Guðmund­ar Steins Haf­steins­son­ar, sem gat breytt ferli bolt­ans nægi­lega mikið til þess að Ingvar Jóns­son, markvörður Vík­ings, gæti ekki rönd við reist.

Þeir Guðmund­ur Steinn og Ingvar voru svo aft­ur í sviðsljós­inu á 32. mín­útu, en þá keyrði sókn­ar­maður­inn í Ingvar, sem var nán­ast kom­inn að miðlínu, við litl­ar vin­sæld­ir heima­manna. Guðmund­ur Steinn upp­skar þar gult spjald og var baulað á hann í hvert sinn er Guðmund­ur kom ná­lægt knett­in­um eft­ir það.

Leik­ur­inn var mest­megn­is í járn­um eft­ir það, eða allt þar til Kvame Quee jafnaði met­in fyr­ir Vík­inga á 43. mín­útu, marka­mín­út­unni sjálfri, með góðu skoti rétt fyr­ir utan teig, sem flaug í háum boga yfir Aron Dag í mark­inu. Jafnt var því á met­un­um þegar liðin héldu til bún­ings­her­bergja.

Síðari hálfleik­ur hófst með miklu fjöri og skipt­ust liðin á að sækja. Voru Vík­ing­ar held­ur aðgangs­h­arðari, en þó áttu KA-menn góða spretti. Þannig átti Guðmund­ur Steinn í þrígang um miðbik hálfleiks­ins færi, en aðeins eitt þeirra rataði þó á markið, þar sem Ingvar var vand­an­um vax­inn.

Fátt leit út fyr­ir að liðin myndu ná að brjóta ís­inn á ný, þegar KA-menn tóku allt í einu for­yst­una á ný. Var þar að verki Steinþór Freyr Þor­steins­son, sem skoraði með föstu skoti af víta­teigs­lín­unni eft­ir að bolt­inn hrökk fyr­ir hann á 74. mín­útu.

Adam var þó ekki lengi í Para­dís, því að heima­menn jöfnuðu inn­an við mín­útu síðar. Fyrst fékk Atli Bark­ar­son skot sem Aron Dag­ur varði í horn, en upp úr henni fékk Hall­dór Jón S. Þor­steins­son flott skot, sem Aron náði aft­ur að verja, að þessu sinni með fót­un­um. Eng­inn KA-maður var hins veg­ar til að hreinsa bolt­ann frá, og þakkaði Helgi Guðjóns­son því fyr­ir sig og jafnaði met­in ör­ugg­lega af markteig.

Bæði lið fengu svo strax fín færi til þess að ná for­yst­unni, en eft­ir þenn­an fjörkipp á 74.-76. mín­útu var mest­allt púðrið úr leikn­um. Liðin sætt­ust því á skipt­an hlut.

Þetta var tólfta jafn­tefli KA-manna í 18 leikj­um, og hafa þeir því jafnað met Breiðabliks frá ár­inu 2014. Norðan­menn hafa nú fjóra leiki til þess að bæta metið, en lík­lega hafa þeir eng­an áhuga á því. Með jafn­tefl­inu færðu þeir sig upp í sjö­unda sæti deild­ar­inn­ar, upp­fyr­ir Skaga­menn á marka­tölu, sem töpuðu á sama tíma fyr­ir FH.

Jafn­teflið gerði hins veg­ar minna fyr­ir Vík­inga, sem sitja áfram í 10. sæti deild­ar­inn­ar, nú með 17 stig. Leik­ur­inn end­ur­speglaði að miklu leyti vanda­mál Vík­inga í sum­ar, þar sem þeir réðu ferðinni á löng­um köfl­um, sér­stak­lega í fyrri hálfleik, en þurftu samt að sætta sig við að lenda tvisvar sinn­um und­ir. Slíkt get­ur reynst dýr­keypt þegar öllu er á botn­inn hvolft, jafn­vel þó að litl­ar lík­ur séu tald­ar á því að botnliðin tvö nái í skottið á þeim.

Vík­ing­ur R. 2:2 KA opna loka
skorar Kwame Quee (43. mín.)
skorar Helgi Guðjónsson (75. mín.)
Mörk
skorar Guðmundur Steinn Hafsteinsson (19. mín.)
skorar Steinþór Freyr Þorsteinsson (74. mín.)
fær gult spjald Júlíus Magnússon (44. mín.)
fær gult spjald Halldór J.S. Þórðarson (56. mín.)
Spjöld
fær gult spjald Guðmundur Steinn Hafsteinsson (32. mín.)
fær gult spjald Sveinn Margeir Hauksson (85. mín.)
mín.
90 Leik lokið
Enn eitt jafnteflið hjá KA-mönnum.
90 Adam Örn Guðmundsson (KA) á skalla sem fer framhjá
+3! Líklega síðasta færi leiksins.
90
Hér eru þrjár mínútur í uppbótartíma.
90
Hallgrímur með fína hornspyrnu, en Ívar Örn náði ekki að skalla boltann.
89 KA fær hornspyrnu
89 Hallgrímur Mar B. Steingrímsson (KA) á skot framhjá
89 Adam Örn Guðmundsson (KA) kemur inn á
89 Almarr Ormarsson (KA) fer af velli
88
Áhorfendur hér í dag eru 202.
87
Hvernig var þetta ekki mark? KA-menn fengu skyndisókn og Ingvar fór í glórulausa skógarferð. Þorri Mar reynir að skalla boltann út í teiginn, en þar er enginn KA-maður.
87 Helgi Guðjónsson (Víkingur R.) á skot sem er varið
Fast skot hjá Helga sem Aron Dagur ver!
86
Ágúst Eðvald með fína fyrirgjöf beint á kollinn á Helga, en tveir Víkingar voru í rangstöðu.
85 Sveinn Margeir Hauksson (KA) fær gult spjald
Brot út við hliðarlínu. Fínt fyrirgjafafæri.
84 Þorri Mar Þórisson (KA) kemur inn á
84 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) fer af velli
84 Ásgeir Sigurgeirsson (KA) kemur inn á
84 Steinþór Freyr Þorsteinsson (KA) fer af velli
83 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) á skot framhjá
Eftir fína sókn KA-manna.
81
Hér slæmir Ingvar höndinni í höfuð Guðmundar Steins þegar hann hreinsar frá. Guðmundur Steinn þarfnast aðhlynningar, en KA-menn undirbúa tvöfalda skiptingu.
78 Atli Barkarson (Víkingur R.) á skot framhjá
77
Kristall Máni með sendingu sem Aron Dagur grípur. Hér kemur hvert færið á fætur öðru, stuttu eftir að mér þótti sem að leikurinn ætlaði að drabbast niður í jafntefli!
75 Kristall Máni Ingason (Víkingur R.) kemur inn á
75 Kwame Quee (Víkingur R.) fer af velli
75 MARK! Helgi Guðjónsson (Víkingur R.) skorar
2:2! Víkingar jafna strax!! Halldór Jón tekur fast skot utan teigs eftir hornspyrnuna sem Aron Dagur ver með fótunum, þar lúrir Helgi Guðjónsson og setur boltann í netið!
75 Víkingur R. fær hornspyrnu
75 Atli Barkarson (Víkingur R.) á skot sem er varið
Víkingar sækja strax, Atli með skot sem Aron gerir vel í að verja í horn.
74 MARK! Steinþór Freyr Þorsteinsson (KA) skorar
1:2! Mér var nær! Andri Fannar sker upp hægri kantinn og gefur fyrir á teiginn. Þar nikkaði KA-maður boltanum áfram á Steinþór sem skaut honum laglega í markið!
74
Það er rúmt kortér eftir af leiknum, en það þarf eitthvað aðeins meira ef að leikurinn á ekki að enda 1:1.
73
Kvame Quee með sendingu inn á teiginn, en Aron Dagur grípur hana.
72
Hér hefur stytt upp, og Víkingar hafa sótt nokkuð í sig veðrið. KA-menn fá nú aukaspyrnu við miðlínu.
70
Ágúst Eðvald keyrir á vörn KA-manna og reynir þríhyrning við Helga. Norðanmenn hins vegar fjölmennir til baka og ná að leysa þetta.
68
Sveinn Margeir með spyrnuna, en Ingvar vel á verði í marki Víkings.
67
Aron Dagur sparkar fram á Andra Fannar sem sendir hann langan á Steinþór. Hann virðist renna, en aukaspyrna dæmd á fínum fyrirgjafastað hægra megin.
66
Guðmundur Steinn fellur hér við, við mikinn fögnuð úr stúkunni. Honum verður ekki fyrirgefið brotið á Ingvari í þessum leik.
66
Kvame liggur hér eftir viðskipti sín við Rodrigo Gómez. Aukaspyrna dæmd og Kvame heldur leik áfram.
65 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) á skalla sem fer framhjá
Þvílíka færið! Geðveik fyrirgjöf beint á kollinn á Guðmundi Steini, en hann nær ekki að stýra boltanum á markið.
64 Rodrigo Gómez (KA) kemur inn á
64 Bjarni Aðalsteinsson (KA) fer af velli
64
Víkingar leika sér að eldinum þegar Ingvar gefur boltann þvert fyrir tómt markið, en þeir ná að bjarga eftir þunga pressu KA-manna.
62 Bjarni Aðalsteinsson (KA) á skot framhjá
Bjarni heimtar hins vegar að taka spyrnuna, og skóflar henni vel framhjá. Illa farið með gott skotfæri.
62
Brotið á Guðmundi Steini á ákjósanlegum stað fyrir Hallgrím Mar.
61
Almarr á Steingrím sem gefur fyrir, þar er Viktor sem böðlar boltanum á Ingvar. KA-menn vilja óbeina aukaspyrnu, en þetta gat varla talist vísvitandi sending.
61 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) á skalla sem fer framhjá
Hornspyrnan beint á kollinn á honum, en boltinn framhjá.
60 KA fær hornspyrnu
60 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) á skot sem er varið
Guðmundur Steinn kominn í ákjósanlegt færi, en skotið beint í lappirnar á Ingvari sem gerði vel þarna.
59
Víkingar með flotta sókn, enn og aftur er Kvame hvatamaðurinn, en fyrirgjöfin bregst og Aron Dagur grípur vel inn í.
59
Spyrnan tekin stutt og endar í fyrirgjöf aftur fyrir endamörk.
58
Halldór Jón gerist aftur brotlegur, skömmu eftir spjaldið. Ívar Orri segir honum að hafa sig hægan.
58
Dæmd hendi á Júlíus Magnússon. Hann er á gulu spjaldi, og augljóst hvað KA-mönnum finnst um þá staðreynd.
57 KA fær hornspyrnu
57
Tveir KA-menn standa við boltann og báðir setja báðar hendur á loft. Það er mögulega táknið fyrir "slök spyrna" því boltinn er skallaður frá af fyrsta varnarmanni.
56 Halldór J.S. Þórðarson (Víkingur R.) fær gult spjald
Fyrir brot á Guðmundi Steini.
55
Steinþór Þorsteinsson telur sig vera kominn einan innfyrir. Hann er rangstæður.
54
Enn er baulað á Guðmund Stein þegar hann fær knöttinn.
53
Atli fær aukaspyrnu við endamörk eftir viðskipt sín við Andra Fannar.
51
Nú er byrjað að rigna í Víkinni. Vonandi hefur það ekki of mikil áhrif á leikinn.
49
Nú fá KA-menn sókn sem endar í innkasti, en nú er Qvist ekki til að kasta honum langt.
47
Liðin koma mjög spræk út í hálfleikinn, hann er nánast teiga á milli! Nú á Atli Barkarson fyrirgjöf í teig KA-manna, sem Aron Dagur grípur.
47
KA-menn fá strax eftir það hættulega sókn, en enginn virðist ætla að taka skotið!
46 Adam Ægir Pálsson (Víkingur R.) á skot sem er varið
Darraðardans í teig KA-manna! Kvame keyrir inn í teig, og boltinn berst til Helga, sem hálfkinksar á boltanum og Adam tekur skotið.
46
Hrannar Björn fer í hægri bakvörðinn og Ívar Örn tekur stöðu Qvists. Þá sé ég ekki betur en að Aron Dagur sé kominn í hvíta treyju eftir að hafa verið í vínrauðri í fyrri hálfleik.
46 Seinni hálfleikur hafinn
45 Hrannar Björn Bergmann (KA) kemur inn á
45 Mikkel Qvist (KA) fer af velli
45
Liðin ganga hér eflaust þokkalega sátt til búningsherbergja. Víkingar byrjuðu sprækari, en KA-menn fengu fyrsta markið. Leikurinn var svo mestmegnis í járnum þar til Kvame Quee jafnaði metin stuttu fyrir leikhlé.
45 Hálfleikur
Allt jafnt í hálfleik!
45
+2. KA-menn með skyndisókn en Ingvar bregst vel við.
45
+1. Ágúst Eðvald fær ákjósanlegt færi eftir mistök Qvists, en hreinsað á síðustu stundu.
45
Tvær mínútur í uppbótartíma. Boltinn gengur milli liða, en Víkingar ögn skarpari.
44 Júlíus Magnússon (Víkingur R.) fær gult spjald
Hörð tækling á miðsvæðinu.
43 MARK! Kwame Quee (Víkingur R.) skorar
1:1! Markamínútan að skila sínu! KA-menn fengu álitlega sókn sem ekkert varð úr. Allt í einu var Kvame Quee einn á auðum sjó, sem skýtur af D-boganum. Boltinn virðist fara af varnarmanni og flýgur í háum boga yfir Aron Dag, sem var þó með hendur í boltanum.
42
Aukaspyrna dæmd á Júlíus, sem bregst forviða við.
41
Hornspyrnan er hreinsuð frá, en Víkingar halda boltanum. Ágúst reynir að renna honum innfyrir vörnina, en Aron Dagur stekkur á boltann og heldur honum.
40 Víkingur R. fær hornspyrnu
39
Og KA-menn skora úr spyrnunni! En flaggið komið upp, margir komnir innfyrir þegar hún er tekin.
39
Hallgrímur Mar fær aukaspyrnu á vallarhelmingi Víkings.
36
Halldór Jón kominn í stórhættulega stöðu hægra megin, en enginn Víkingur til að ná fyrirgjöfinni.
35 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) á skot framhjá
KA-menn fá álitlega sókn en skot Guðmundar Steins afleitt. Kannski hafði áhrif að Víkingar í stúkunni bauluðu á Guðmund þegar hann fékk boltann?
35
Nú eigast við Kvame og Mikkel Qvist, sem lýkur með því að Kvame brýtur á varnarmanninum. Ívar Orri með allt á hreinu.
34
Ingvar hefur jafnað sig og leikurinn hefst að nýju.
33
Ingvar þarf nú aðhlynningu, en hann liggur hér nánast við miðlínu.
32 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) fær gult spjald
Guðmundur Steinn ennþá pirraður keyrir inn í Ingvar markmanni sem var kominn langt út úr marki sínu.
31
KA-menn fá skyndisókn, sem ekkert verður úr. Guðmundur Steinn, sem var hvatamaðurinn, rökræðir svo við Ívar Orra, telur að brotið hafi verið á sér.
30 Víkingur R. fær hornspyrnu
Skemmtileg aukaspyrna, en KA-menn bjarga aftur fyrir.
30
Mikkel Qvist brýtur á Adam við vítateigshornið. KA-menn ósáttir en réttur dómur.
28
Adam Ægir með fyrirgjöfina úr aukaspyrnunni, en Mikkel Qvist stekkur manna hæst og skallar boltann frá.
27
Ívar Örn brýtur á Halldóri Jóni og Víkingar fá aukaspyrnu við vítateigshornið hægra megin.
25
KA-menn í góðu færi, Guðmundur Steinn leggur hann fyrir Hallgrím, sem missir af boltanum og brýtur þess í stað á leikmanni Víkings.
25
Halldór Orri með fyrirgjöf sem Aron Dagur grípur auðveldlega.
25
Víkingar hafa lært af mistökum sínum og hreinsa innkastið frá. En með þessa kastgetu Qvists eru innköstin nánast eins og aukaspyrnur.
24
Almarr sækir upp hægri kant, framlengir á Steinþór sem gefur fyrir. Þetta hefði vel getað orðið hættulegt, en í staðnn fá KA-menn innkast á nánast sama stað og markið kom úr.
23
Hornspyrnan tekin langt til baka, fyrirgjöfin í háum boga inn í teig þar sem Kvame skallar frá. KA-menn halda boltanum, en ná ekki að gera sér mat úr því.
22 KA fær hornspyrnu
22
Markið verður að teljast nokkurt kjaftshögg fyrir Víkinga sem höfðu fengið nokkur ágæt færi til taka forystuna áður en KA-menn skoruðu.
20 Adam Ægir Pálsson (Víkingur R.) á skot framhjá
Varamaðurinn ætlar sér að jafna metin strax, en tilraun hans endar í boga ofan á þaknetinu.
19 MARK! Guðmundur Steinn Hafsteinsson (KA) skorar
0:1! KA-menn fengu annað innkast sem Qvist tók langt. Boltinn hrökk til Bjarna sem tók misheppnað skot. Það fór hins vegar þannig að boltinn sveif á kollinn á Guðmund Stein sem gat skallað hann í markið fram hjá Ingvari sem var kominn úr stöðu.
19 Adam Ægir Pálsson (Víkingur R.) kemur inn á
19 Sölvi Geir Ottesen (Víkingur R.) fer af velli
19
Nú liggur Halldór Jón eftir.
18
Sjúkraþjálfarinn gefur merki um að það þurfi skiptingu. Á sama tíma taka KA-menn langt innkast sem Víkingar mega hafa sig alla við að skalla í burtu.
17
Upp úr því fara KA-menn í hraða skyndisókn, þar sem Sölvi Geir Ottesen fellur allt í einu við. Hann virðist þurfa aðhlynningu og röltir út af til að fá hana. Ekkert varð hins vegar úr færinu.
16
Víkingar sækja nú og sækja, nú á Viktor Örlygur sendingu inn, en Aron Dagur tekur hana.
15
Átti þetta að vera víti? Ágúst Eðvald með lúmskan bolta inn á Erling Agnarsson sem fellur við í teignum. Leit út eins og smásnerting frá Mikkel Qvist, en þetta hefði verið mjög harður dómur.
15
Helgi Guðjónsson var allt í einu einn á auðum sjó, en of lengi að athafna sig. Vörnin tók svo máttlitla skottilraun hans, en Víkingar halda boltanum.
13
Fín sókn KA-manna, sem héldu boltanum vel innan liðsins. Sóttu upp hægri kant, en Ágúst Eðvald skallar hana frá.
10 Viktor Örlygur Andrason (Víkingur R.) á skot framhjá
Heimamenn sækja heldur meira, og úr einni sókninni fær Viktor Örlygur skotfæri utan teigs. Hann gleymdi hins vegar að halla sér fram yfir boltann, sem flaug langt út í Fossvoginn.
9 Víkingur R. fær hornspyrnu
Ekkert kemur úr hornspyrnunni. Halldór Jón reynir að tefja fyrir aukaspyrnu KA-manna. Ívar Orri veitir honum tiltal, en gult hefði eflaust ekki verið kvörtunarefni.
8 Helgi Guðjónsson (Víkingur R.) á skot sem er varið
KA-menn voru í sókn en misstu boltann, Kvame þræddi boltann í gegnum vörn KA, en Aron Dagur réttur maður á réttum stað!
7 Kwame Quee (Víkingur R.) á skot sem er varið
Kvame Quee reynir bjartsýnisskot en Aron Dagur ver hann með glæsilegum tilþrifum.
6
KA-menn fengu svo í kjölfarið fína skyndisókn en Víkingar vandanum vaxnir, þrátt fyrir að vera fámennir til baka.
6 Víkingur R. fær hornspyrnu
Hár bolti fyrir sem Aron Dagur grípur af öryggi.
5
Víkingar hafa verið meira með boltann á upphafsmínútunum, en engin sérstök færi komið fyrir utan skotið hjá Helga í byrjun.
2 Helgi Guðjónsson (Víkingur R.) á skot sem er varið
Helgi lék hér snyrtilega á Mikkel Qvist og átti fast skot, sem Aron Dagur varði vel.
0 Leikur hafinn
Þá er leikurinn hafinn, KA-menn spila í lillabláum varabúningum sínum og sækja í átt að félagsheimili Víkings.
0
Auk Jajalos fara Hrannar Björn Steingrímsson, Ásgeir Sigurgeirsson og Rodrigo Gómez allir á bekkinn frá síðasta leik, 1:1 jafntefli við Breiðablik. Steinþór Freyr Þorsteinsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Ívar Örn Árnason taka þeirra stað.
0
KA-menn gera fjórar breytingar á sínu byrjunarliði. Þar vekur mesta athygli að Aron Dagur Birnuson, markvörðurinn efnilegi, er kominn í byrjunarliðið á ný, en hann missti sæti sitt fyrr í sumar til Kristijans Jajalo. Jajalo hefur þótt standa sig ágætlega, en nú vill Arnar greinilega gefa unga manninum tækifæri.
0
Byrjunarliðin eru klár. Hjá Víkingum vekur einna helst athygli að Kári Árnason er ekki í hóp, en hann hefur verið meiddur og ekki byrjað síðustu tvo leiki. Spurning hvort að landsleikurinn við Rúmena spili þarna eitthvað í?
0
Bæði lið eru því eflaust ósátt við sumarið, og því kjörið tækifæri hér í dag til þess að byrja að rétta úr kútnum fyrir næsta sumar.
0
Gestirnir að norðan eru hins vegar með 20 stig í áttunda sæti eftir jafnmarga leiki og Víkingur. Bæði lið sigla því tiltölulega lygnan sjó, eru bæði langt á undan fallkandídötum Gróttu og Fjölnis, en á sama tíma er Evrópubaráttan langt undan.
0
Heimamenn í Víkingi eru í tíunda sæti af tólf í deildinni að loknum 17 leikjum með 16 stig. Gengi Víkinga hefur ekki verið upp á sitt besta, en þeir hafa skipst á að tapa og gera jafntefli í síðustu fimm leikjum sínum.
0
Komiði sæl og blessuð og verið velkomin með mbl.is í beina textalýsingu frá leik Víkings og KA í Pepsi Max-deild karla.
Sjá meira
Sjá allt

Víkingur R.: (4-3-3) Mark: Ingvar Jónsson. Vörn: Halldór J.S. Þórðarson, Sölvi Geir Ottesen (Adam Ægir Pálsson 19), Halldór Smári Sigurðsson, Atli Barkarson. Miðja: Júlíus Magnússon, Ágúst Eðvald Hlynsson, Viktor Örlygur Andrason. Sókn: Kwame Quee (Kristall Máni Ingason 75), Helgi Guðjónsson, Erlingur Agnarsson.
Varamenn: Þórður Ingason (M), Dofri Snorrason, Kristall Máni Ingason, Adam Ægir Pálsson, Sigurður Steinar Björnsson, Tómas Guðmundsson, Jóhannes Dagur Geirdal.

KA: (4-5-1) Mark: Aron Dagur Birnuson. Vörn: Andri Fannar Stefánsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Mikkel Qvist (Hrannar Björn Bergmann 45), Ívar Örn Árnason. Miðja: Steinþór Freyr Þorsteinsson (Ásgeir Sigurgeirsson 84), Sveinn Margeir Hauksson, Almarr Ormarsson (Adam Örn Guðmundsson 89), Bjarni Aðalsteinsson (Rodrigo Gómez 64), Hallgrímur Mar B. Steingrímsson. Sókn: Guðmundur Steinn Hafsteinsson (Þorri Mar Þórisson 84).
Varamenn: Kristijan Jajalo (M), Haukur Heiðar Hauksson, Rodrigo Gómez, Ásgeir Sigurgeirsson, Hrannar Björn Bergmann, Þorri Mar Þórisson, Adam Örn Guðmundsson.

Skot: KA 10 (3) - Víkingur R. 11 (8)
Horn: Víkingur R. 5 - KA 4.

Lýsandi: Stefán Gunnar Sveinsson
Völlur: Víkingsvöllur
Áhorfendafjöldi: 202

Leikur hefst
4. okt. 2020 14:00

Aðstæður:
Þurrt en kalt. Haustið er klárlega komið.

Dómari: Ívar Orri Kristjánsson
Aðstoðardómarar: Birkir Sigurðarson og Jóhann Gunnar Guðmundsson

mbl.is

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
03.04 22:00 Ísland : Noregur
04.04 18:00 Sviss : Frakkland
07.04 22:00 Ísland : Sviss
08.04 17:00 Noregur : Frakkland
29.05 22:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
02.06 22:00 Ísland : Frakkland
02.06 22:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert

Íslenski fótboltinn

Meira
L U J T Mörk +/- Stig
1 Frakkland 2 2 0 0 4:2 2 6
2 Noregur 2 1 0 1 2:2 0 3
3 Ísland 2 0 1 1 2:3 -1 1
4 Sviss 2 0 1 1 1:2 -1 1
25.02 Frakkland 3:2 Ísland
25.02 Noregur 2:1 Sviss
21.02 Frakkland 1:0 Noregur
21.02 Sviss 0:0 Ísland
03.04 22:00 Ísland : Noregur
04.04 18:00 Sviss : Frakkland
07.04 22:00 Ísland : Sviss
08.04 17:00 Noregur : Frakkland
29.05 22:00 Noregur : Ísland
30.05 19:10 Frakkland : Sviss
02.06 22:00 Ísland : Frakkland
02.06 22:00 Sviss : Noregur
urslit.net
Fleira áhugavert