Sannfærandi Blikasigur í Evrópubaráttunni

Brynjólfur Andersen Willumsson kemur Breiðabliki yfir gegn Fylki.
Brynjólfur Andersen Willumsson kemur Breiðabliki yfir gegn Fylki. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Breiðablik vann í kvöld öruggan 4:1-sigur á Fylki í Pepsi Max-deild karla í fótbolta. Voru bæði lið með 28 stig fyrir leikinn en með sigrinum fer Breiðablik aftur upp fyrir KR og Stjörnuna og upp í þriðja sætið. 

Breiðablik byrjaði betur og skapaði sér nokkur færi áður en Arnór Borg Guðjohnsen kom Fylki yfir gegn gangi leiksins með fallegu skoti rétt utan teigs á 16. mínútu. 

Það tók Breiðablik níu mínútur að jafna og það gerði Brynjólfur Willumsson er hann kláraði vel framhjá Aroni Snæ Friðrikssyni í marki Fylkis eftir sendingu Stefáns Inga Sigurðarsonar sem var í framlínu Breiðabliks í fjarveru Thomasar Mikkelsen. 

Brynjólfur var aftur á ferðinni á 29. mínútu er hann skoraði af miklu öryggi úr víti eftir að Daði Ólafsson sparkaði Stefán Inga niður í teignum. Urðu mörkin í fyrri hálfleik ekki fleiri. 

Það dró til tíðinda á 54. mínútu en þá fékk Daði Ólafsson sitt annað gula spjald og þar með rautt hjá Fylki. Blikar nýttu sér liðsmuninn og bættu við tveimur mörkum. 

Elfar Freyr Helgason skoraði þriðja mark Breiðabliks með skalla eftir hornspyrnu og varamaðurinn Atli Hrafn Andrason það fjórða er hann lék á Aron Snæ í markinu og skoraði. 

Breiðablik er nú í þriðja sæti með 31 stig og Fylkir í sjötta sæti með 28 stig. 

Kærkomið hjá Blikum

Sigurinn var kærkominn hjá Breiðabliki í Evrópubaráttunni eftir aðeins einn sigur í síðustu sex leikjum þar á undan. Það vantaði menn hjá báðum liðum en breiddin er meiri hjá Breiðabliki og því fór sem fór. Fjarvera Thomasar Mikkelsen í framlínunni angraði Blikana lítið og liðið lék glæsilega á köflum. 

Hinn 19 ára gamli Stefán Ingi Sigurðarson kom inn í framlínuna í staðinn fyrir Mikkelsen og stóð sig virkilega vel og þá átti Brynjólfur Willumsson einn sinn besta leik til þessa í sumar. Blikaliðið er hörkugott og í raun stórfurðulegt að það sé 13 stigum á eftir toppliði Vals. Þetta lið á að geta betur. 

Vængbrotnir Fylkismenn

Fjórir leikmenn tóku út leikbann hjá Fylki í leiknum og þá er Valdimar Þór ingimundarson horfinn á braut. Fylkir er ekki með sérstaklega góða breidd og mátti einfaldlega ekki við því að vera án góðra leikmanna á erfiðum útivelli. 

Tímabilið hefur heilt yfir verið gott hjá Fylki og betra en flestir áttu von á eftir breytingar á þjálfarateymi fyrir tímabilið. Fylkismenn eru hins vegar búnir að tapa átta leikjum í sumar og það er of mikið. Það þarf að kunna að koma í veg fyrir töp, líka þegar liðið spilar ekki vel. Brekkan er orðin afar brött í baráttunni um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð. 

Breiðablik 4:1 Fylkir opna loka
90. mín. Arnór Gauti Ragnarsson (Fylkir) á skot framhjá Rekur boltann ansi langa vegalengd áður en hann setur hann langt framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka