Þór/KA vann gríðarlega mikilvægan 1:0 sigur á Selfossi í 16.umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu nú í dag. Þór/KA liðið er í harðri fallbaráttu og þurfti nauðsynlega á stigunum þremur að halda.
Heimakonur byrjuðu leikinn að krafti og spiluðu fyrri hálfleikinn virkilega vel. Madeline Gotta var sérstaklega öflug og hún kom liðinu yfir á 23.mínútu leiksins. Hún lék á Barbáru á vinstri kantinum, keyrði inn að teignum og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.
Heimakonur fengu góð tækifæri til þess að bæta við mörkum í fyrri hálfleik. María Ólafsdóttir Gros fékk besta færið, hún fékk sendingu inn á teiginn, komst fram hjá markmanni Selfyssinga en frábær tækling hjá Áslaugu Dóru kom í veg fyrir að heimakonur næðu að tvöfalda forustuna. Þrátt fyrir það var staðan 1:0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik fengu heimakonur fleiri færi til þess að bæta við marki en tókst ekki að skora. Eftir því sem leið á leikinn sóttu Selfyssingar í sig veðrið en gekk afar illa að skapa sér færi. Þær áttu sem dæmi ekki skot á ramman í leiknum. Það fór svo að Þór/KA vann leikinn 1:0 og náði í þrjú mikilvæg stig.
Fallbaráttan í Pepsi Max deild kvenna er afar jöfn og sigurinn er því kærkominn fyrir Þór/KA liðið. Þegar þetta er skrifað er liðið í 7.sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Stjarnan og Þróttur en með lakari markatölu. Liðið er tveimur stigum fyrir ofan öruggt sæti og það er í raun meirihluti deildarinnar í fallhættu þegar tvær umferðir eru eftir. Þór/KA á eftir leiki við Þrótt og KR sem eru einnig í fallbaráttu og því mikilvægar vikur fram undan.