Hagi reyndist Íslendingum erfiður

Gheorghe Hagi skoraði í báðum leikjum Íslands og Rúmeníu þegar …
Gheorghe Hagi skoraði í báðum leikjum Íslands og Rúmeníu þegar liðin mættust í undankeppni HM 1998. Twitter@bet365

Ísland og Rúmenía mætast í undanúrslitum umspilsins fyrir EM í knattspyrnu á Laugardalsvelli á morgun klukkan 18:45.

Bæði lið ætla sér sigur en það lið sem hefur betur í einvíginu á Laugardalsvelli á morgun mætir annaðhvort Búlgaríu eða Ungverjalandi í úrslitaleik um laust sæti á EM.

Liðin hafa aðeins mæast tvívegis áður í A-landsleik en það var í undankeppni HM 1998. 

Þá mættust liðin fyrst á Laugardalsvelli í október 1996 á Laugardalsvelli þar sem Rúmenar unnu 4:0-sigur.

Gheorghe Hagi skoraði eitt marka Rúmena í leiknum en hann skoraði tvívegis þegar liðin mættust ytra í september 1997 í  4:0-sigri Rúmena. Hann er talinn besti knattspyrnumaðurinn í sögu Rúmeníu og lék m.a. með bæði Barcelona og Real Madrid á sínum tíma.

Ianis Hagi, sonur Gheorges Hagis, er leikmaður rúmenska landsliðsins í dag en hann er samningsbundinn Rangers í Skotlandi.

Eyjólfur Sverrisson og Rúnar Kristinsson léku með íslenska landsliðinu gegn Rúmenum og nú eru synir þeirra, Hólmar Örn Eyjólfsson og Rúnar Alex Rúnarsson, í íslenska landsliðshópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert