Stór munur á himnaríki og helvíti

Erik Hamrén var kátur í leikslok.
Erik Hamrén var kátur í leikslok. mbl.is/Eggert

„Ég er ánægður og mér er létt,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, eftir 2:1-sigur liðsins gegn Rúmeníu í undanúrslitum umspils um laust sæti á EM á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvívegis í fyrri hálfleik en það var Alexandru Maxim sem minnkaði muninn fyrir Rúmena með marki úr vítaspyrnu á 63. mínútu.

„Ég sagði það fyrir leikinn að annaðhvort yrðum við í himnaríki eða helvíti í leikslok. Það er mikill munur þar á og núna erum við í himnaríki.

Þetta var hrikalega mikilvægur sigur fyrir okkur, knattspyrnusambandið og alla íslensku þjóðina. Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna. Við vörðumst virkilega vel og skoruðum frábær mörk.

Úrslitin voru frábær fyrir okkur og þau eru það sem skiptir mestu máli í þessu,“ sagði þjálfarinn.

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru marki sínu gegn Rúmenum á …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru marki sínu gegn Rúmenum á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aldrei vítaspyrna

Rúmenar minnkuðu muninn úr vítaspyrnu á 63. mínútu en þeir vildu fá annað víti undir lok leiksins þegar boltinn virtist fara í hönd Ragnars Sigurðssonar innan teigs.

„Ég hef ekki séð vafaatriðin úr leiknum ennþá. Hvorki vítð né rangstöðuna sem var dæmt þegar Alfreð skoraði. Ég talaði við dóttur mína í símann í leikslok og hún sagði að þetta hefði aldrei verið  víti!“

Íslenska liðið mætir Danmörku í Þjóðadeild UEFA á sunnudaginn kemur á Laugardalsvelli og eins og staðan er í dag er enginn á förum úr íslenska hópnum.

„Það mun enginn yfirgefa hópinn fyrr en eftir leikinn gegn Danmörku, eins og staðan er í dag. Arnór Sigurðsson og Jón Dagur Þorsteinsson koma inn í hópinn úr U21 árs landsliðinu. Það fengu einhverjir högg í leiknum en það er of snemmt að segja til um meiðsli leikmanna eins og staðan er núna,“ bætti þjálfarinn við.

Alfreð Finnbogason skoraði mark í kvöld sem var dæmt af …
Alfreð Finnbogason skoraði mark í kvöld sem var dæmt af vegna rangstöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert