Leik Íslands og Ítalíu í undankeppni Evrópumóts 21-árs landsliða karla sem fram átti að fara á Víkingsvellinum í dag hefur verið frestað vegna kórónuveirusmits í röðum ítalska liðsins.
Þrír leikmanna liðsins greindust með veiruna eftir komu til landsins eins og áður hefur komið fram og KSÍ staðfesti rétt í þessu að leikurinn færi ekki fram.
Ekki er ljóst hvenær hann fer fram, mögulega í nóvembermánuði, en UEFA mun finna nýja dagsetningu fyrir hann. Íslenska liðið á að leika þrjá aðra leiki í keppninni í október og nóvember, þann næsta í Lúxemborg á þriðjudaginn.