Alfons sló leikjamet Hólmars

Alfons Sampsted er orðinn leikjahæsti leikmaður 21-árs landsliðsins frá upphafi.
Alfons Sampsted er orðinn leikjahæsti leikmaður 21-árs landsliðsins frá upphafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfons Sampsted, fyrirliði íslenska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, sló leikjametið í þessum aldursflokki þegar Ísland sigraði Lúxemborg, 2:0, í undankeppni Evrópumótsins í Esch-sur-Alzette í Lúxemborg í dag.

Alfons lék sinn 28. leik með 21-árs landsliði Íslands og sló þar með met Hólmars Arnar Eyjólfssonar en hann lék 27 landsleiki í þessum aldursflokki á árunum 2007 til 2012.

Alfons, sem leikur með norska toppliðinu Bodö/Glimt, er langleikjahæstur af núverandi leikmönnum 21-árs landsliðsins. Hann hefur í yfirstandandi keppni farið fram úr þeim Bjarna Þór Viðarssyni, sem lék 26 landsleiki frá 2005 til 2011 og Birki Bjarnasyni sem lék 25 landsleiki frá 2006 til 2011.

Þeir Hólmar, Bjarni og Birkir voru allir í íslenska 21-árs landsliðinu sem komst í lokakeppni EM í Danmörku árið 2011 og hafnaði þar í fimmta sæti.

Alfons á möguleika á að leika sama leik en íslenska liðið er í harðri baráttu við Ítali, Íra og Svía um að komast í lokakeppni EM á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert