Íslenska U21 árs landslið karla í fótbolta gerði góða ferð til Lúxemborgar í dag og vann 2:0-sigur á landsliði þjóðarinnar í undankeppni Evrópumótsins í Ungverjalandi og Slóveníu á næsta ári.
Keflvíkingurinn Ísak Óli Ólafsson sem leikur með SønderjyskE í Danmörku skoraði fyrra mark Íslands á 30. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar bætti Sveinn Aron Guðjohnsen við marki og þar við sat. Leikur Sveinn með OB í Danmörku að láni frá Spezia á Ítalíu.
Gianni Medina hjá Lúxemborg fékk tvö gul spjöld á tíu mínútuna kafla snemma í seinni hálfleik og þar með rautt.
Er Ísland í þriðja sæti riðilsins með 15 stig eftir sjö leiki, einu stigi á eftir Írlandi og Ítalíu. Hefur Írland leikið einum leik meira en Ítalía og Ísland. Léku Ítalía og Írland á Ítalíu í dag og hafði heimaliðið betur, 2:0.
Efsta lið hvers riðils fer í lokakeppnina ásamt þeim fimm liðum sem ná bestum árangri í öðru sæti riðlanna.