Hlín Eiríksdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eru eftirsóttar af liðum í Svíþjóð en það er Fotbollskanalen sem greinir frá þessu.
Karólína Lea og Sveindís Jane voru báðar í byrjunarliði íslenska liðsins í 1:1-jafntefli liðanna í undankeppni EM á Laugardalsvelli 22. september síðastliðinn.
Þær stóðu sig afar vel og stálu fyrirsögnunum eftir leikinn eins og segir í umfjöllun Fotbollskanalen.
„Það var áhugi á þeim fyrir leikinn á Laugardalsveli en eftir hann hefur áhuginn aukist til muna,“ segir meðal annars í frétt Fotbollskanalen.
„Það er áhugi á þeim en mesti áhuginn er á Sveindísi og Hlín, í Svíþjóð í það minnsta,“ sagði Gylfi Sigurðsson, umboðsmaður þeirra, í samtali við sænska miðilinn.
Karólína og Sveindís, sem eru báðar fæddar árið 2001, leika með Breiðabliki en Sveindís er samingsbundin Keflavík og er á láni hjá Breiðabliki.
Hlín, sem er fædd árið 2000, er samningsbundin Íslandsmeisturum Vals.