Annar Íslendingur til AC Milan?

Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Lettum á …
Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Lettum á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðný Árnadóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, er eftirsótt af erlendum liðum samkvæmt heimildum mbl.is.

Eitt þessara liða er AC Milan á Ítalíu en Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, lék sem lánsmaður hjá liðinu frá janúar og fram í maí á þessu ári þar sem hún stóð sig mjög vel.

Kvennalið AC Milan er nokkuð nýtt af nálinni en það var stofnað í júlí 2018 og hefur byrjað tímabilið mjög vel í ítölsku A-deildinni.

Liðið er með 15 stig í þriðja sæti deildarinnar eftir fyrstu sex leiki sína, þremur stigum minna en Juventus, sem er í efsta sæti deildarinnar.

Guðný, sem er tvítug að árum, er uppalin hjá FH í Hafnarfirði en gekk til liðs við Val fyrir tímabilið 2019.

Hún á að baki 83 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað sex mörk og þá á hún að baki átta A-landsleiki.

Guðný er einnig eftirsótt af liðum á Norðurlöndunum og ef hún ákveður að spila þar á næstu leiktíð er Kristianstad í Svíþjóð, lið Elísabetar Gunnarsdóttur, líklegasti áfangastaðurinn samkvæmt heimildum mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert