Erfitt að lýsa svekkelsinu

Feðgarnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arnór Guðjohnsen í íslenska landsliðsbúningnum.
Feðgarnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arnór Guðjohnsen í íslenska landsliðsbúningnum. mbl.is/Bjarni J. Eiríksson

Arnór Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpsþætti Sölva.

Arnór, sem er einn besti knattspyrnumaður Íslandssögunnar, fór yfir víðan völl í þættinum og ræddi meðal annars atvikið þegar sonur hans Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á fyrir hann í vináttulandsleik Eistlands og Íslands í Tallinn í apríl 1996.

Strákur hæfur í hlutverkið

„Ég sagði einhvern tímann frá því í belgísku sjónvarpsviðtali að þetta væri draumurinn,“ sagði Arnór í hlaðvarpsþættinum.

„Þá var Eiður bara 9 ára, en maður sá í hvað stefndi hjá honum og ég hugsaði að þetta væri raunverulegur möguleiki ef ég væri þrjóskur og héldi lengi áfram.

Eftir leikinn þar sem hann kom inn á fyrir mig fékk ég hringingar frá fjölmiðlum um allan heim. Kína, Bandaríkjunum og Evrópu.

Þetta hefði orðið rosalegur viðburður ef við hefðum síðan byrjað saman inn á. Sá leikur átti að vera á heimavelli gegn Makedóníu mánuði síðar.

En svo brotnar hann á milli þessarra leikja og  ég get ekki lýst svekkelsinu almennilega, það var það mikið,” bætti Arnór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert