„Þetta var afar sérstakt svo ekki sé meira sagt,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.
KSÍ tók þá ákvörðun í gær að blása af keppnistímabilið og var Valur með öruggt forskot í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, þegar ákvörðunin var tekin.
„Við vorum nýbúnir að klára æfingu þegar við heyrðum af þessu. Við hefðum að sjálfsögðu viljað klára þá leiki sem eftir voru af tímabilinu en fyrsta orðið sem kom upp í hugann er sérstakt.
Ég bjóst satt best að segja ekki við því að þetta yrði blásið af í gær. Ég átti von á því að það yrðu einhverjir fundir og reynt að bíða með að klára mótið eitthvað lengur og það kom manni á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn.“
Fyrirliðinn telur að það hefði verið gerlegt að spila áfram fram í desember.
„Við hefðum eflaust þurft að spila eitthvað aðeins inn í desember til að klára mótið en öll lið eru hvort sem er vön að spila æfingaleiki á þeim tíma.
Það hefði allavega verið hægt að gera eitthvað til að halda mótinu gangandi að mínu mati þótt það hefði kannski verið erfitt að spila grasleikina.
Við spiluðum úrslitaleik BOSE-mótsins í desember í fyrra á okkar gervigrasi þannig að við hefðum klárlega getað spilað en vegna reglugerðarinnar sem KSÍ setti í júlí var þetta kannski of flókið mál.“
Valsmenn voru með átta stiga forskot á FH þegar mótið var blásið af en þetta er þriðji Íslandsmeistaratitill Hauks.
„Mér finnst við algjörlega verðskulda þennan meistaratitil en þetta er klárlega mjög sérstakt á sama tíma. Það var mikið um stopp, menn æfðu mikið einir. Svo komu þessi útihlaup líka inn í dæmið.
Mótinu var seinkað og það er því ansi margt sem er sérstakt við þetta tímabil. Það endar svo svona þannig að það er erfitt að bera þessa þrjá titla saman þar sem við klárum ekki mótið.
Ég get allavega sagt að það er allt annað að verða sigurvegari inni á vellinum en að koma af æfingu og sjá bara á netinu að það sé búið að slaufa mótinu þegar við eigum fjóra leiki eftir.
Það er þess vegna ekki hægt að bera þessar tilfinningar saman.“
Valsmenn fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum saman í gærkvöldi og hafa fengið gagnrýni fyrir enda samkomubann í gildi hér á landi.
„Þessi fagnaðarlæti voru ekki plönuð eða neitt slíkt. Við ákváðum að hittast aðeins í Fjósinu eftir að við fréttum að mótinu hefði verið slaufað.
Þetta voru klár mistök, við biðjumst afsökunar á þessari hegðun okkar sem var óábyrg á þessum tímum. Við áttum að vita betur og auðvitað áttum við bíða með fagnaðarlætin,“ bætti Haukur við.