Öruggt hjá Valskonum í Meistaradeildinni

Valur er kominn áfram í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir þægilegan sigur gegn HJK frá Finnlandi í 1. umferð keppninnar á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

Leiknum lauk með 3:0-sigri Vals en öll mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom Valskonum yfir strax á 8. mínútu en Hlín Eiríksdóttir átti þá laglega sendingu frá hægri á Gunnhildi sem lagði boltann snyrtilega í netið fram hjá Önnu Koivunen í marki HJK.

Elín Metta Jensen bætti við öðru marki Vals, ellefu mínútum síðar, en hún setti þá góða pressu á Koivunen í marki Finnanna. Koivunen ætlaði að sparka frá marki en boltinn fór af Elínu Mettu og í netið og staðan orðin 2:0.

Á 35. mínútu átti Gunnhildur Yrsa góðan sprett inn í vítateig HJK. Hún sneri laglega á Mimmi Nurmela sem klippti hana niður og vítaspyrna dæmd.

Mist Edvardsdóttir steig á punktinn, skoraði af öryggi og Valskonur leiddu því með þremur mörkum gegn engu í hálfleik.

Valskonur fengu nokkur frábær tækifæri til þess að bæta við mörkum í síðari hálfleik en Anna Koivunen í marki HJK var vel á verði og bjargaði oft meistaralega.

Valskonur verða því í pottinum 6. nóvember næstkomandi þegar dregið verður í 2. umferð Meistaradeildarinnar í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss en leikið verður í 2. umferðinni 18. og 19. nóvember.

Valur 3:0 HJK Helsinki opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka