Erik Hamrén, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er að vonum spenntur fyrir komandi landsleikjum liðsins. Ísland mætir Ungverjalandi í Búdapest á fimmtudaginn í hreinum úrslitaleik um sæti á Evrópumeistaramótinu á næsta ári.
„Fyrsti leikurinn er auðvitað sá mikilvægasti, þetta er spurning um hvort við förum á EM eða ekki. Við höfum beðið eftir þessum leik síðan í mars,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi KSÍ í dag. Hann tilkynnti leikmannahópinn sem mætir Ungverjum og svo Danmörku og Englandi í Þjóðadeild UEFA en allir leikirnir verða spilaðir á útivelli.
„Það er reynsla, gæði og mikið hungur í þessum leikmannahópi. Við viljum fara á Evrópumeistaramótið,“ sagði Svínn enn fremur en hópurinn er skipaðir öllum helstu leikmönnum Íslands síðustu ára.
Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Anderson detta úr hópnum sem var valinn fyrir síðustu landsliðsverkefni en Hamrén segist einfaldlega hafa valið þá leikmenn sem hann vill hafa til taks fyrir leikinn gegn Ungverjum. Það komi svo til greina að bæta við tveimur leikmönnum fyrir hina tvo leikina.
„Ég valdi þessa 24 leikmenn vegna þess að það eru þeir sem ég vil fyrir fyrsta leikinn. Svo sjáum við til fyrir næstu tvo leiki, við getum bætt við tveimur leikmönnum,“ sagði Hamrén og staðfesti að þeir Jón Dagur og Mikael geta verið í U21 landsliðshópnum sem er einnig að berjast um sæti á EM.
Nokkrir af lykilmönnum Íslands hafa verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur en Hamrén segir stöðuna á hópnum almennt góða. Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson, Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson hafa allir verið að glíma við smávægileg meiðsli.
„Þeir eru heilir heilsu og að æfa. Kári hefur auðvitað ekkert spilað vegna ástandsins á Íslandi en hann er reynslumikill leikmaður og veit hvað hann þarf að gera til að vera í standi fyrir leikinn.
„Ragnar hefur verið að æfa undanfarna viku, ég talaði við hann í gær og honum líður vel. Jóhann Berg var sömuleiðis smávægilega meiddur en þeir eru báðir jákvæðir um að geta verið með í næstu viku,“ sagði Hamrén.
Að lokum vildi Hamrén ekki ræða framtíð sína sem þjálfari liðsins, leikurinn gegn Ungverjum á alla hans athygli.
„Ég einbeiti mér bara að þessum leik og mikilvægi hans. Eftir það hugsum við um Danmörku, svo England, síðan ræðum við framtíðina. Aðalatriðið er að reyna komast á Evrópumeistaramótið.“