Bensínið kláraðist í Búdapest

Dominik Szoboszlai reyndist hetja Ungverja þegar liðið mætti Íslandi í umspili um laust sæti á EM í knattspyrnu á Puskás Aréna í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og strax á fjórðu mínútu átti Guðlaugur Victor Pálsson flottan skalla að marki, eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar, en Péter Gulácsi var vel staðsettur í marki Ungverja og varði vel. 

Sex mínútum síðar var Jóhann Berg Guðmundsson felldur, rétt utan teigs, klemmdur af tveimur varnarmönnum Ungverja, og aukaspyrna dæmd.  

Gylfi Þór átti skot að marki Ungverja en boltinn fór beint á Gulácsi sem ætlaði að grípa boltann þægilega. Markvörðurinn missti boltann klaufalega yfir sig og í netið og Ísland komið yfir. 

Ungverjar unnu sig vel inn í leikinn og settu mikla pressu á íslenska liðið sem hélt þó áfram að ógna úr skyndisóknum sínum. 

Jóhann Berg Guðmundsson fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar hann slapp einn í gegn en skot hans, utarlega í teignum, fór beint á Gulácsi í markinu.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks átti Gylfi hörkuskot með vinstri fæti rétt utan vítateigs en Gulácsi kastaði sér og varði vel. Staðan var því 1:0 í hálfleik, Íslandi í vil.

Ungverjar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og strax á 52. mínútu átti Attila Szalai hörkuskot, rétt utan teigs, sem fór af Kára Árnasyni og Ragnari Sigurðssyni og rétt yfir markið.

Ungverjar voru meira með boltann og settu góða pressu á íslenska liðið, án þess þó að ná að opna vörn íslenska liðsins af neinu viti.

Á 84. mínútu fékk Jón Daði Böðvarsson fínasta færi þegar hann komst upp hægra megin en skot hans fór í hliðarnetið.

Þremur mínútum síðar átti Jón Daði stórhættulega sendingu fyrir markið á Albert Guðmundsson sem fer einn fyrir opnu marki en hann þurfti að teygja sig í knöttinn og boltinn fór rétt fram hjá markinu.

Loic Nego jafnaði metin fyrir Ungverja, mínútu síðar, þegar Hörður Björgvin Magnússon ætlaði að hreinsa frá marki en boltinn fór í Kára Árnason og datt fyrir fætur Nego sem skoraði af stuttu færi úr markteignum.

Þremur mínútum síðar átti Jón Daði fast skot í varnarmann Ungverja. Boltinn barst til Dominik Szoboszlai sem tók á rás frá eigin vallarhelmingi. Hann brunaði fram hjá varnarmönnum íslenska liðsins, lét vaða rétt utan teigs, og boltinn fór í stöngina og inn.

Ísland er því úr leik og fer ekki á þriðja stórmótið í röð á meðan Ungverjar verða með í lokakeppninni næsta sumar.

Gylfi Þór kemur Íslandi í 0:1.
Gylfi Þór kemur Íslandi í 0:1. AFP

Með leikinn í lás í áttatíu mínútur

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og komst yfir snemma leiks. Eftir það stjórnuðu Ungverjar ferðinni, voru meira með boltann, og settu ágætis pressu á íslenska liðið án þess þó að ná að skapa sér einhver afgerandi marktækifæri.

Það mætti alveg segja sem svo að íslenska liðið hafi verið með leikinn í lás í 85. mínútur en eftir því sem leið á leikinn fór að draga mikið af leikmönnum íslenska liðsins.

Erik Hamrén, þjálfari íslenska liðsins, stillti upp reynslumiklu liði en níu af ellefu byrjunarliðsleikmönnum Íslands í kvöld hafa byrjað nánast alla leiki landsliðsins frá því Lars Lagerbäck tók við landsliðinu árið 2012.

Staðreyndin er hins vegar sú að af þeim ellefu leikmönnum sem byrjuðu í kvöld voru fimm þeirra í leikformi. Hannes Þór Halldórsson spilaði síðast í síðasta landsleikjahléi, sem og þeir Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Birkir Bjarnason.

Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson eru báðir búnir að vera mikið meiddir og eiga ennþá eftir að spila 90. mínútur fyrir félagslið sín á tímabilinu.

Það er leiðinlegt að segja það en því miður þá virkaði íslenska liðið ekki í formi til þess að klára leikinn og sigla sigrinum heim.

Þá má einnig setja spurningamerki við skiptingarnar hjá Hamrén en Sverrir Ingi Ingason kom inn á í vörnina á 87. mínútu. Vörn sem hafði ekki fengið á sig opið marktækifæri og það riðlaði leik liðsins mikið enda kom hann inn á fyrir miðjumann og var engin ástæða til þess að fækka á miðjunni og fjölga í vörninni.

Íslenska karlalandsliðið hefur verið sameiningartákn þjóðarinnar undanfarin ár og eftir góðan árangur í síðustu undankeppni þá hefur verið auðvelt að horfa fram hjá því að margir leikmenn liðsins eru komnir á seinni hluta ferilsins.

Það er allt í góðu og aldur á ekki að skipta máli þegar menn eru að spila, en þegar menn eru ekki að spila með félagsliðum sínum, en eiga svo að spila úrslitaleik um sæti á EM má alveg spyrja sig hvort það sé kominn tími á endurnýjun hjá íslenska liðinu.

Gylfi Þór fagnar marki sínu.
Gylfi Þór fagnar marki sínu. AFP
Ungverjaland 2:1 Ísland opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert