Nær sæti í lokakeppni verður vart komist

Viðbrögð Guðlaugs Victors Pálssonar og Sverris Inga Ingasonar á þessari …
Viðbrögð Guðlaugs Victors Pálssonar og Sverris Inga Ingasonar á þessari mynd segja allt sem segja þarf um andrúmsloftið í leikslok. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslensku landsliðsmennirnir í knattspyrnu þurftu að ganga af leikvelli á Puskás Aréna með óbragð í munni í Búdapest í Ungverjalandi í gærkvöldi. Ísland var 1:0 yfir í 77 mínútur í hreinum úrslitaleik um að komast í lokakeppni EM sem fram fer næsta sumar en mátti samt sætta sig við tap. Ungverjaland skoraði tvívegis undir lok venjulegs leiktíma og sneri taflinu við. Ungverjaland sigraði 2:1 og fer í lokakeppni EM en Ísland er úr leik. Nær verður vart komist sæti í lokakeppni, ef það næst ekki, en að fá á sig mark í uppbótartíma í hreinum úrslitaleik í umspilinu.

Ísland komst yfir strax á 11. mínútu þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði beint úr aukaspyrnu. Sakleysislegt skot Gylfa var beint á markvörðinn, Péter Gulácsi, sem gerðist kærulaus og hugðist grípa boltann. Hann fór hins vegar á milli handa Gulácsi og þaðan inn fyrir marklínuna.

Eftir að hafa horft á Gylfa skora markið þá gat maður ekki varist þeirri hugsun að lukkudísirnar yrðu með okkar mönnum þetta kvöldið. Eins og þær hafa oft verið á undanförnum árum. Nokkuð langt er síðan íslenska liðið hefur þurft að sætta sig við tap í EM eða HM eftir að hafa fengið á sig sigurmark á lokamínútum leiks. Er því reyndar haldið fram hér eftir minni en sætu sigrarnir hafa verið allnokkrir. Til dæmis gegn Austurríki á EM í Frakklandi eða gegn Finnlandi í undankeppni HM. Í þeim tilfellum var það Ísland sem skoraði seint og tryggði sér sigur en nú þurfa landsliðsmennirnir að kyngja því að verða fyrir slíku.

Ísland var yfir í 77 mínútur

Ekki þarf að deila um að Ungverjar voru miklu meira með boltann en Íslendingar að þessu sinni. Ef Ísland hefði ekki tekið forystuna jafn snemma og raun bar vitni má vera að leikurinn hefði þróast á annan hátt. Ungverjarnir voru með boltann á löngum köflum en sú staða hefur ekki verið óþægileg fyrir íslenska liðið á undanförnum árum. Sennilega eru fá landslið í heiminum sem eru jafn vön því að pakka í vörn og verja forskot eða jafntefli með ágætum árangri.

Umfjöllun um landsleik Íslands og Ungverjalands má sjá í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert