Aldrei auðvelt að spila gegn Íslandi

Gareth Southgate á hliðarlínunni í kvöld.
Gareth Southgate á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Það er aldrei auðvelt að spila gegn íslenska landsliðinu, það er erfitt að brjóta það niður en við spiluðum gríðarlega vel í kvöld,“ sagði Gareth Southgate, þjálfari Englands, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 4:0-sigur á Íslandi í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í kvöld.

England vann nauman 1:0-sigur á Laugardalsvellinum í fyrri leik liðanna í september en enska liðið spilaði töluvert betur í kvöld. Southgate segir ástæðuna fyrir því einfalda. „Þá voru leikmennirnir okkar enn á undirbúningstímabilinu sínu og við höfðum ekki spilað saman sem lið í tíu mánuði. Við höfum bætt okkur mikið síðan þá.“

England endaði í 3. sæti riðilsins og komst ekki í úrslit Þjóðadeildarinnar. Southgate segist hafa blendnar tilfinningar um árangur liðsins í keppninni.

„Ég hef blendnar tilfinningar. Við höfum átt nokkrar mjög góðar frammistöður og mögulega töpuðum við tveimur bestu leikjunum okkar. Við höfum gert dýrkeypt mistök í þessari keppni en sömuleiðis gefið tíu nýjum leikmönnum tækifæri með landsliðinu. Framtíðin er björt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert