Fundað um framtíð landsliðsþjálfarans

Jón Þór Hauksson tók við þjálfun íslenska kvennalandsliðsins í október …
Jón Þór Hauksson tók við þjálfun íslenska kvennalandsliðsins í október 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnarmenn innan KSÍ stefna á að koma saman fljótlega eftir helgi þar sem málefni Jóns Þórs Haukssonar, landsliðsþjálfara kvenna í knattspyrnu, verða rædd samkvæmt heimildum mbl.is.

KSÍ skoðar nú at­vik sem átti sér stað í Búdapest í Ung­verjalandi eft­ir að ís­lenska liðið hafði tryggt sér sæti í loka­keppni Evr­ópu­móts­ins í Englandi 2022 en það var fót­bolti.net sem greindi fyrst frá þessu.

Landsliðsþjálfarinn fór þá langt yfir strikið gagnvart nokkrum leikmönnum liðsins og lét mjög óviðeigandi ummæli falla í þeirra garð eftir að hafa neytt áfengis. 

Bæði leikmenn og þjálfarar liðsins, sem búsettir eru á Íslandi, eru í sóttkví þessa stundina eftir ferðalagið til Ungverjalands en fara í aðra skimun vegna kórónuveirufaraldursins á morgun.

Vonast er til þess að niðurstöður úr þeirri skimun skili sér á morgun og ef allir málsaðilar verða lausir úr sóttkví seinni part morgundags má reikna með því að blásið verði til fundar innan sambandsins á þriðjudaginn. Það gæti hins vegar dregist úr vikuna en aðeins framkvæmdastjóri KSÍ hefur heimild til þess að segja þjálfaranum upp.

Jón Þór skrifaði undir tveggja ára samning við KSÍ í október 2018 en samningur hans átti að framlengjast sjálfkrafa þar sem hann kom liðinu í lokakeppni EM 2021. Staðan er hins vegar afar sérstök þar sem EM var frestað um eitt ár, til sumarsins 2022, og er það einn af þeim þáttum sem verða skoðaðir á fundinum í vikunni.

Samkvæmt heimildum mbl.is verða allir málsaðilar boðaðir á fundinn og verður ákvörðun tekin um framtíð þjálfarans eftir hann en eins og áður hefur komið fram var mörgum leikmönnum innan hópsins mjög brugðið yfir hegðun þjálfarans í Búdapest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka