Landsliðskonur íhuga stöðu sína

Jón Þór Hauksson ásamt fyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttir á Laugardalsvelli …
Jón Þór Hauksson ásamt fyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttir á Laugardalsvelli í ágúst 2019 fyrir leik Íslands og Ungverjalands í undankeppni EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir leikmenn sem hafa verið fastakonur í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu undanfarin ár íhuga nú að gefa ekki kost á sér í komandi landsliðsverkefni samkvæmt heimildum mbl.is.

Framtíð Jóns Þórs Haukssonar, þjálfara liðsins, hefur verið mikið í umræðunni eftir atvik sem átti sér stað í Búdapest í Ungverjalandi eftir að liðið hafði tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í Englandi 2022 en það var fótbolti.net sem greindi fyrst frá þessu.

Alvarlegur trúnaðarbrestur átti sér stað á milli leikmanna í hópnum og þjálfarans eins og mbl.is greindi frá fyrir helgi og íhuga nokkrir þeirra að gefa ekki kost á sér á meðan Jón Þór er áfram við stjórnvölinn hjá landsliðinu.

Landsliðsþjálfarinn fór yfir strikið í samræðum sínum við leikmenn liðsins, eftir að hafa neytt áfengis, og lét hann óviðeigandi ummæli falla í garð þeirra.

Margir leikmannanna voru í uppnámi eftir atvik síðustu viku og eftir því sem mbl.is kemst næst situr það enn í mörgum þeirra þrátt fyrir að þjálfarinn hafi haft samband og beðist afsökunar á hegðun sinni.

Jón Þór tók við þjálf­un ís­lenska kvenna­landsliðsins í októ­ber 2018 og er hann með besta sigur­hlut­fall allra þjálf­ara sem stýrt hafa liðinu í gegn­um tíðina, ásamt því að vera með best­an hlut­falls­ár­ang­ur þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka