Fjórir leikmenn sömdu við Fram

Aron Kári Aðalsteinsson og Arnór Daði Aðalsteinsson
Aron Kári Aðalsteinsson og Arnór Daði Aðalsteinsson Ljósmynd/Fram

Knattspyrnudeild Fram hefur samið við fjóra meistaraflokksleikmenn félagsins síðustu daga, tvo úr karlaliðinu og tvær úr kvennaliðinu.

Varnarmaðurinn Aron Kári Aðalsteinsson, sem er 21 árs, leikur áfram með Fram á næsta tímabili en hann kom til félagsins í láni frá Breiðabliki í fyrra og verður áfram sem lánsmaður í Safamýrinni.

Arnór Daði Aðalsteinsson er 23 ára varnarmaður, uppalinn hjá Fram og hefur spilað með liðinu frá 2015. Hann samdi til þriggja ára.

Fríða Þórisdóttir er 36 ára varnarmaður sem hefur leikið víða, lengst með Þrótti R., og var í stóru hlutverki hjá Fram á síðasta tímabili.

Sóley Rut Þrastardóttir er 28 ára fjölhæfur leikmaður með talsverða reynslu og lék með Fram í fyrra en einnig árið 2016.

Karlalið Fram hafnaði í 3. sæti 1. deildar í ár og missti af sæti í úrvalsdeildinni á markatölu. Fram tefldi fram sjálfstæðu kvennaliði á ný, í fyrsta sinn í fjögur ár, og hafnaði í 7. sæti 2. deildar.

Fríða Þórisdóttir.
Fríða Þórisdóttir. Ljósmynd/Fram
Sóley Rut Þrastardóttir.
Sóley Rut Þrastardóttir. Ljósmynd/Fram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert