„Þetta verður hörkubarátta og vonandi getum við náð nógu mörgum stigum til að ná öðru af efstu tveimur sætunum. Það hlýtur alltaf að vera okkar stefna,“ sagði Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, þegar mbl.is bar undir hann niðurstöðuna í drættinum fyrir undankeppni HM karla í knattspyrnu.
Í dag var dregið til riðlakeppninnar fyrir lokakeppnina sem verður í Katar 2022 eins og frægt varð. Ísland mætir Þýskalandi, Rúmeníu, Norður-Makedóníu, Armeníu og Liechtenstein í J-riðli.
„Þetta er spennandi og nú er alla vega komið í ljós hvar við berum niður í þessu. Ég held að möguleikarnir séu alveg ágætir. Þýskaland alltaf með firnasterkt lið. Við þekkjum auðvitað Rúmeníu eftir umspilsleikinn á dögunum. Við höfum spilað áður við N-Makedóníu, Armerníu og Liechtenstein. Ekki má vanmeta liðin úr neðri styrkleikaflokkum enda þurfa þau að hafa fyrir öllum stigum í landsleikjum.
Á það má benda að erfiðara er að komast áfram úr undankeppni HM en undankeppni EM. Efsta sæti í riðlinum gefur sæti í lokakeppninni og umspilsréttur fæst með því að lenda í öðru sæti. Við stefnum á annað efstu tveggja sætanna.“
Ísland var í þriðja styrkleikaflokki. Úr öðrum styrkleikaflokki dróst Ísland á móti Rúmeníu sem Ísland vann 2:1 í umspili um sæti á EM í haust. Guðni var sjálfur atvinnumaður og landsliðsfyrirliði á sínum keppnisferli. Telur hann að það sé sálrænt gott að dragast á móti liði sem okkar menn eru nýbúnir að leggja að velli í mikilvægum leik?
„Jú ég held að það ætti að vera það. Okkur gekk vel í þeim leik og spilamennskan á móti Rúmeníu var góð. Ég held að það geti nýst okkur. Svo var athyglisvert að Þýskaland missteig sig illilega nú fyrir skömmu gegn Spánverjum en erfitt er að lesa of mikið í það enda bara einn leikur. Þetta eru erfiðustu andstæðingarnir í riðlinum, Þýskaland og Rúmenía.“
Guðni segir að í undankeppnum sem þessum þurfi að raða leikjum Íslands eftir árstíma þar sem heimavöllurinn getur illa hýst leiki yfir vetrartímann.
„Líklega hefst undankeppnin á þriggja leikja glugga í mars. Við byrjum auðvitað á útivelli fyrstu þrjá leikina í keppninni því við getum ekki spilað heima á þeim árstíma. Er það einmitt eitt af lykilatriðum í okkar málflutningi varðandi nýjan þjóðarleikvang. Það er mikilvægt atriði að fá heimaleiki þegar undankeppnir stórmóta eru að hefjast enda gott að byrja vel í keppnunum,“ sagði Guðni Bergsson í samtali við mbl.is.