Hættir með kvennalandsliðið

Jón Þór Hauksson lætur af störfum síðar í dag ásamt …
Jón Þór Hauksson lætur af störfum síðar í dag ásamt aðstoðarmönnum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, lætur af störfum sem þjálfari liðsins í dag samkvæmt heimildum mbl.is.

Von er á tilkynningu frá Knattspyrnusambandinu, KSÍ, síðar í dag en mikið hefur gustað í kringum kvennalandsliðið undanfarna daga.

Liðið tryggði sér sæti á lokakeppni EM 2022 í síðustu viku eftir 1:0-sigur gegn Ungverjalandi í Búdapest í lokaleik sínum í undankeppninni.

Ísland komst beint í lokakeppnina sem eitt þriggja liða með bestan árangur í öðru sæti undankeppninnar en enginn þjálfari í sögu kvennalandsliðsins er með betra sigurhlutfall í starfi en Jón Þór.

Þjálfarinn fór hins vegar yfir strikið í fagnaðarlátunum í Búdapest eftir að liðið hafði tryggt sæti sitt á EM en það var fótbolti.net sem greindi fyrst frá þessu.

Þar lét hann óviðeigandi ummæli falla í garð leikmanna liðsins sem sneru að getu þeirra á vellinum, sum þeirra fyrir framan allan leikmannahópinn, eftir að hafa neytt áfengis í óhóflegu magni.

Jón Þór tók við kvennalandsliðinu í október 2018 og var Ian Jeffs ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins á sama tíma. Þeir munu báðir stíga til hliðar samkvæmt heimildum mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert