Sara: Óásættanleg hegðun en leikmenn hafa ekki áhrif

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði.
Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu segir að hegðun Jóns Þórs Haukssonar þjálfara kvennalandsliðsins eftir leikinn í Ungverjalandi í síðustu viku hafi verið óásættanleg. Það sé hinsvegar ekki ákvörðun leikmanna heldur KSÍ hver þjálfi landsliðið. 

Sara ber jafnframt til baka fullyrðingar um að hún hafi áhrif á hver sé þjálfari kvennalandsliðsins en hún birti tvær yfirlýsingar á Twitter fyrir stundu.

Sara segir eftirfarandi í pistli með yfirskriftinni: Fyrir hönd leikmanna:

Eftir leik Íslands og Ungverjalands um daginn varð ljóst að við tryggðum okkur sæti á EM 2022. Við fögnuðum því enda virkilega ánægðar með að hafa náð okkar markmiðum. Sama kvöld átti sér stað óásættanleg hegðun Jóns Þórs aðalþjálfara liðsins gagnvart hluta leikmannahópsins. Þar átti hann persónuleg samtöl við leikmenn um önnur mál en fótbolta sem valdið hafa trúnaðarbresti milli hans og leikmanna liðsins.

Í fjölmiðlum hafa komið fram vangaveltur um hvort Jón Þór hefði átt að halda áfram sem þjálfari eða ekki. Líkt og fyrr er það alltaf ákvörðun KSÍ hver gegnir starfi landsliðsþjálfara. Fréttaflutningur um að leikmenn gæfu ekki kost á sér í framtíðarverkefni landsliðsins ef Jón Þór yrði áfram er uppspuni. Slík umræða hefur aldrei átt sér stað innan leikmannahópsins og mótmælir hópurinn slíkum fréttaflutningi harðlega. Leikmönnum finnst sorglegt að umfjöllun um framtíð Jóns Þórs sé farin að færast yfir í vangaveltur um áhrif leikmanna.

Síðan segir Sara í pistli með yfirskriftinni: Fyrir mína hönd:

„Ég vil svara þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum um að ég sem leikmaður hafi áhrif á ákvörðun um starf landsliðsþjálfara íslenska kvennalandsliðsins.

Ég sem leikmaður Íslands og sem manneskja get ekki setið á mér og horft upp á fjölmiðla fjalla um ósannar fullyrðingar um mig persónulega án þess að svara fyrir mig.

Alhæfingar í fjölmiðlum um að ég Sara Björk sé ekki sátt með ákveðinn þjálfara eða ráðningu einhvers þjálfara og að sá aðili myndi ekki fá né halda starfi eru rangar. Þessar ósönnu fullyrðingar skapa ímynd um mig sem er kolröng og kæri ég mig ekki um svona fréttaflutning. Ég vil því taka það fram að sem leikmaður hef ég alltaf sett mér það að í liði eru allir jafnir. Sama hvaða hlutverk fólk fær að þá erum við öll í sama liðinu og hvorki ég né neinn annar hefur meira atkvæðavægi en aðrir í liðinu. Þegar kemur að ákvörðunartöku um þjálfaramál landsliðs kvenna er hún alfarið í höndum KSÍ eins og áður hefur komið fram.

Í ljósi atviksins í Ungverjalandi snýst málið um að brotið var á leikmönnum liðsins og ég sem fyrirliði liðsins mun alltaf standa þétt við bakið á leikmönnum og hugsa um hag þeirra og hópsins sem heild. KSÍ hefur tekið ákvörðun. Hér með er ég búin að tjá mig um þetta mál!"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert