Starfshópur á vegum KSÍ hefur lagt til fram tillögur að því hvernig hægt sé að fjölga leikjum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, en starfshópurinn var skipaður af stjórn KSÍ í desember 2019.
Á ársþingi sambandsins var svo gefið samþykki fyrir skipan hópsins en starfshópurinn leggur meðal annars til að frá og með keppnistímabilinu 2022 verði fyrirkomulaginu í efstu deild karla breytt.
Tólf lið munu leika í deildinni eins og verið hefur undanfarin ár og verður spiluð tvöföld umferð. Að henni lokinni verður liðunum tólf skipt í efri riðil og neðri riðil.
Í efri hlutanum verður leikið um bæði Íslandsmeistaratitilinn og Evrópusæti. í neðri hlutanum er svo leikið um hvaða lið falla úr deildinni. Þá myndu félögin taka með sér fengin stig úr deildarkeppninni, inn í lokahluta mótsins.
„Það er sorgleg staðreynd að íslensku félagsliðin (karla) hafa hrapað niður styrkleikalista UEFA með þeim afleiðingum að frá og með keppnistímabilinu 2022 mun Ísland einungis eiga þrjú sæti í Evrópukeppnum félagsliða,“ segir meðal annars í skýrslu starfshópsins.
„Ísland hefur fallið um 17 sæti á mjög skömmum tíma og situr nú í sæti 52 af 55 þjóðum í Evrópu. Það er því verk að vinna í þessum málum. Eitt af markmiðum hópsins er að “Auka gæði og samkeppnishæfni íslenskrar knattspyrnu og leikmanna sem leika á Íslandi.“
Að mati hópsins er mikilvægt að auka möguleika félaga og leikmanna að taka skref fram á við til að bæta gæði og fagmennsku. Það verði best gert með því að fjölga betri leikjum og lengja keppnistímabilið.
Samfara því að tækifæri til tekjuöflunar verði aukin. Í því samhengi þarf að hafa í huga að nýr sjónvarps- og markaðsréttarsamningur deildarinnar rennur út að loknu keppnistímabilinu 2021,“ segir ennfremur í skýrslunni en hana má lesa með því að smella hér.