Valur ætlar að senda varalið sitt í 2. deild kvenna í fótbolta á næsta keppnistímabili og það mun leika undir merkjum Knattspyrnufélagsins Hlíðarenda, KH.
Frá þessu er greint á facebook-síðu knattspyrnudeildar Vals en þetta er í annað sinn sem Hlíðarendafélagið fer þessa leið því KH lék eitt tímabil áður, 2016, í 1. deild kvenna.
Arnar Páll Garðarsson hefur verið ráðinn þjálfari liðsins og yfirþjálfari Vals, Haraldur Hróðmarsson, verður honum til stuðnings.
Fram kemur að náið samstarf verið við meistaraflokk Vals og þjálfarana þar, Pétur Pétursson og Eið Benedikt Eiríksson. Með liði KH munu leika efnilegustu leikmenn 2. og 3. flokks Vals og á síðunni segir að þar með fái ungir og efnilegir leikmenn Vals tækifæri til að reyna sig fyrr í meistaraflokki.
Þetta er sama módel og er hjá Breiðabliki þar sem efnilegir leikmenn úr 2. og 3. flokki fá tækifæri til að spila með Augnabliki í 1. deild.