„Ég hef tekið ákvörðun að þetta sé komið gott hjá mér og ég ætla að snúa mér að einhverju öðru. Ég er orðin 34 ára og þetta er búið að vera frábær tími hjá Breiðabliki,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir landsliðsmarkvörður og fyrirliði Breiðabliks í fótbolta í samtali við mbl.is, en hún hefur lagt markvarðarhanskana á hilluna.
„Það spilar inn í að EM hafi verið frestað. Ég hefði örugglega tekið eitt tímabil í viðbót ef EM hefði verið á þessu ári,“ sagði Sonný sem varð Íslandsmeistari með Breiðabliki á sínu síðasta tímabili. „Að enda þetta sem Íslandsmeistari var geggjað. Ég hefði viljað verða tvöfaldur meistari, en því miður var það ekki hægt þar sem hætt var við bikarinn. Það er hinsvegar gott að hætta eftir gott tímabil og hætta þegar maður gat eitthvað enn þá.“
Sonný er óviss hvað tekur við hjá sér, en hún er byrjuð í þjálfaranámskeiðum hjá KSÍ.
„Ég er byrjuð að taka þjálfaranámskeið hjá KSÍ og svo er ég byrjuð í golfi sem mér finnst hrikalega skemmtilegt. Ég byrjaði á þessu námskeiði hjá KSÍ í vetur og ég get ímyndað mér að ég þjálfi eitthvað í framtíðinni.
Það er ekki hægt að slíta sig alveg frá fótboltanum sem ég hef verið í síðan ég var krakki. Það er rosalega gaman að vera hluti af hóp og ég væri til í að halda því áfram. Það vantar fleiri kvenkynsþjálfara en við sjáum til hvort ég reyni að fara alla leið í þjálfun,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir.
Sonný lék 197 leiki í efstu deild á ferlinum og er á meðal leikjahæstu leikmanna deildarinnar frá upphafi. Þá lék hún sjö A-landsleiki. Sonný er uppalin hjá Fjölni og lék með liðinu frá 2002 til 2013 að undanskildu einu ári hjá Haukum 2010. Varð hún þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Breiðabliki og tvisvar bikarmeistari. Breiðablik fékk aðeins þrjú mörk á sig í 15 leikjum í deildinni síðasta sumar.