Chanté Sandiford er að ganga til liðs við Stjörnuna og mun hún leika með liðinu í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, á komandi keppnistímabili.
Þetta herma heimildir mbl.is en markvörðurinn Sandiford hefur leikið með Haukum í Hafnarfirði í 1. deildinni undanfarin tvö tímabil.
Chanté er 31 árs gömul en hún kom fyrst hingað til lands árið 2015 þegar hún gekk til liðs við Selfoss þar sem hún lék í þrjú tímabil.
Frá Selfossi lá leiðin til Noregs þar sem hún lék með Avaldsnes í eitt tímabil áður en hún sneri aftur til Íslands og samdi við Hauka.
Hún á að baki 36 leiki í efstu deild hér á landi og þá á hún að baki fimm landsleiki fyrir Guyana frá árinu 2016.
Stjarnan hafnaði í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.