Davíð Örn Atlason, bakvörður Víkings í Reykjavík, er eftirsóttur þessa dagna og hafa Víkingar fengið nokkur tilboð í leikmanninn.
Þetta staðfesti Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Fótbolta.net í dag en í hlaðvarpsþættinum Dr. Football var fullyrt að Breiðablik hefði áhuga á leikmanninum.
„Ég get hreinlega ekki sagt neitt til um það, Davíð er lykilmaður hjá okkur og þetta er viðkvæmt mál,“ segir Haraldur í samtali við Fótbolta.net þegar hann var spurður út í það hvort Davíð yrði seldur á næstu dögum.
Davíð, sem er 26 ára gamall, á að baki 107 leiki fyrir félagið í efstu deild þar sem hann hefur skorað sex mörk en samningur hans rennur út næsta haust.