Belgíski knattspyrnumaðurinn Sebastiaan Brebels er genginn til liðs við KA á Akureyri.
Þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag en Sebastiaan, sem er 26 ára gamall miðjumaður, kemur til félagsins frá B-deildarliði Lommel í Belgíu.
Hann hefur skorað þrjú mörk í fjórtán leikjum fyrir Lommel á tímabilinu en hann er væntanlegur til landsins á næstu dögum að því er fram kemur í fréttatilkynningu Akureyringa.
„Það verður gaman að sjá þennan öfluga leikmann í KA-búningnum á komandi tímabili og bjóðum við hann velkominn norður,“ segir í fréttatilkynningu KA-manna.