Knattspyrnufélag ÍA hefur lagt til að spiluð verði þreföld umferð í úrvalsdeild karla í knattspyrnu frá árinu 2022 eða 33 leikir á hvert lið.
Skagamenn leggjast þar með gegn tillögu starfshóps KSÍ um að spiluð verði úrslitakeppni í bæði efri og neðri hluta deildarinnar en það yrði einföld umferð sem myndi bætast við og því leiknar 27 umferðir í stað 22 eins og gert hefur verið frá árinu 2008.
„Í raun snýr tillaga starfshópsins að því að innleiða þriðju umferðina í Íslandsmótinu í knattspyrnu í efstu deild karla en þó aðeins að hluta þar sem þriðja umferðin verður í efri og neðri hluta sem þýðir að hún verður í reyn „pólaríseruð“ eða klofin í tvær fylkingar,“ segir í tilkynningu ÍA.
„Það er mikilvægt að skoða hvort slík breyting hafi jákvæð áhrif á íslenska knattspyrnu og félögin í efsta lagi píramídans,“ segir ennfremur í tilkynningu.
Skagamenn leggja til að Íslandsmótið hefjist í kringum 10. apríl og að spilað verði út október en búast má við því að breytingar á Íslandsmótinu verði ræddar af miklum þunga á ársþingi KSÍ í febrúar.