Guðni Bergsson, formaður knattspyrnusambands Íslands undanfarin fjögur ár, gefur kost á sér til endurkjörs á þingi sambandsins sem verður haldið 27. febrúar.
Formannskjör er á tveggja ára fresti en Guðni var fyrst kjörinn formaður árið 2017 og síðan endurkjörinn árið 2019.
Greint er frá þessu á heimasíðu KSÍ og þar kemur einnig fram að annað stjórnarfólk sem lýkur sínu tveggja ára kjörtímabili á þessu þingi gefur allt kost á sér til endurkjörs.
Það eru þau Ásgeir Ásgeirsson, Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason og Þorsteinn Gunnarsson sem gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Á síðasta ári voru Gísli Gíslason, Ingi Sigurðsson, Ragnhildur Skúladóttir og Valgeir Valgeirsson kjörin til tveggja ára og þeirra kjörtímabili lýkur því í febrúar 2022. Sama er að segja um landshlutafulltrúana Jakob Skúlason, Björn Friðþjófsson, Bjarna Ólaf Birkisson og Tómas Þóroddsson.
Varamenn í stjórn eru hinsvegar ávallt kjörnir til eins árs. Í fyrra voru Þóroddur Hjaltalín, Guðjón Bjarni Hálfdánarson og Jóhann K. Torfason kjörnir varamenn og þeir gefa allir kost á sér til áframhaldandi setu.