Íslenska 21-árs landsliðið í knattspyrnu karla leikur í sex liða riðli í undankeppni Evrópumótsins 2023 en dregið var í riðla núna fyrir hádegið.
Núverandi keppni, EM 2021, er enn í gangi en Ísland komst áfram úr riðlakeppninni og leikur í úrslitakeppni í Slóveníu og Ungverjalandi í lok mars.
Ísland var í þriðja styrkleikaflokki af sex í drættinum í dag, var raðað í 20. sæti af 53 þjóðum sem taka þátt í undankeppninni.
Ísland er í D-riðli og mætir Portúgal úr fyrsta styrkleikaflokki, Grikklandi úr öðrum flokki, Hvíta-Rússlandi úr fjórða flokki, Kýpur úr fimmta flokki og Liechtenstein úr sjötta styrkleikaflokki.
Davíð Snorri Jónasson var á dögunum ráðinn þjálfari 21-árs landsliðsins í stað Arnars Þórs Viðarssonar, eftir að sá síðarnefndi var ráðinn þjálfari A-landsliðs karla.