Grindvíkingur leggur skóna á hilluna

Alexander Veigar Þórarinsson er búinn að leggja skóna á hilluna.
Alexander Veigar Þórarinsson er búinn að leggja skóna á hilluna. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Knattspyrnumaðurinn Alexander Veigar Þórarinsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann var samningsbundinn uppeldisfélagi sínu Grindavík en nú er ljóst að hann spilar ekki með liðinu í Lengjudeildinni á komandi leiktímabili.

Knattspyrnudeild Grindavíkur tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í dag.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun en sú rétta fyrir mig. Ég hef leikið í meistaraflokki í 15 ár og líf mitt hefur að miklu leyti snúist um fótbolta. Þetta er rétti tímapunkurinn til að láta gott heita,“ sagði Alexander Veigar í samtali við heimasíðu Grindavíkur.

Alexander Veigar, sem er 32 ára gamall, lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki 17 ára gamall í Landsbankadeild karla sem þá var og hét árið 2005. Alls lék hann 241 leik í deild og bikar á ferlinum og skoraði í þeim 47 mörk.

„Ég er mjög þakklátur mínu uppeldisfélagi Grindavík fyrir allt sem félagið hefur gert fyrir mig. Ég hef einnig verið svo heppinn að kynnast mörgum ótrúlegum karakterum í boltanum sem eru margir hverjir vinir mínir í dag. Þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag og þakklæti er mér efst í huga þegar ég lít til baka á ferilinn,“ sagði Alexander Veigar einnig.

Ásamt því að spila með uppeldisfélagi sínu lék Alexander Veigar með Fram, Reyni Sandgerði, BÍ/Bolungarvík og Þrótti R. á ferli sínum í meistaraflokki.

Knattspyrnudeild Grindavíkur þakkaði að lokum Alexander Veigari fyrir sitt framlag:

„Knattspyrnudeild Grindavíkur vill þakka Alexander kærlega fyrir sitt framlag til félagsins. Þarna er á ferðinni frábær leikmaður og félagsmaður. Við óskum honum alls hins besta í þeim verkefnum sem hann mun nú taka sér fyrir hendur!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert