Tómas Ingi ráðinn aðstoðarþjálfari Fylkis

Tómas Ingi Tómasson.
Tómas Ingi Tómasson. Árni Sæberg

Tómas Ingi Tómasson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Fylki í knattspyrnu. Verður hann einnig yfir afreksþjálfun drengja og stúlkna hjá félaginu.

Tómas Ingi tekur við starfinu af Ólafi Inga Skúlasyni sem tók á dögunum við þjálfun U-19 ára landsliðs karla og U-15 ára landsliðs kvenna.

Verður Tómas Ingi því aðalþjálfurum Fylkis, þeim Atla Sveini Þórarinssyni og Ólafi Inga Stígssyni, til aðstoðar.

Tómas Ingi er reynslumikill þjálfari sem var um áratugs skeið aðstoðarþjálfari U-21 árs og hefur einnig þjálfað meistaraflokk karla hjá HK.

Hann snýr nú aftur til Fylkis þar sem hann var um skeið yfirþjálfari félagins og þjálfaði yngri flokka hjá því en þurfti frá að hverfa vegna erfiðra veikinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert