Fylkir í úrslit – Oddur með þrennu

Hákon Ingi Jónsson skoraði fyrir Fylkismenn sem unnu alla leiki …
Hákon Ingi Jónsson skoraði fyrir Fylkismenn sem unnu alla leiki sína í riðlakeppni Reykjavíkurmótsins. mbl.is/Hari

Fylkir tryggði sér í gær sæti í úrslitum Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu með sigri á Fjölni.

Fylkir vann B-riðilinn með 9 stig, KR fékk 6 stig, Fjölnir 3 en Fram ekkert. Fylkir mætir annað hvort Val eða Víkingi í úrslitaleiknum en það skýrist í dag hvort þeirra vinnur A-riðilinn, þar sem Leiknir R. á reyndar einnig möguleika.

Unnar Steinn Ingvarsson, sem kom til Fylkis frá Fram í vetur, skoraði sigurmarið gegn Fjölni á 89. mínútu, 3:2, í leik liðanna í Egilshöllinni. Hákon Ingi Jónsson og Þórður Gunnar Hafþórsson höfðu komið Fylki í 2:0 en Orri Þórhallsson og Hilmir Rafn Mikaelsson jafnað fyrir Fjölni.

KR-ingar sigruðu Fram 3:0 á gervigrasvelli KR-inga. Oddur Ingi Bjarnason, sem KR-ingar lánuðu til Grindavíkur á síðasta tímabili, stal algjörlega senunni og skoraði öll þrjú mörk Vesturbæjarliðsins.

Þá voru þrír leikir í A-deild Fótbolta.net-mótsins í gær. Grindavík vann Keflavík 1:0 í grannaslag í Reykjaneshöllinni þar sem Sigurður Bjartur Hallsson skoraði sigurmarkið. ÍA vann HK 2:1 í Akraneshöllinni og Breiðablik vann FH 3:1 á Kópavogsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert