Belgíski knattspyrnumaðurinn Jonathan Hendrickx sem áður lék með FH og Breiðabliki hefur samið við KA-menn um að leika með þeim í sumar.
Hann hefur að undanförnu leikið með Lommel í belgísku B-deildinni en Hendrickx á að baki 29 leiki með Breiðabliki og 49 með FH í úrvalsdeildinni á árunum 2014 til 2019.
Þar með verða tveir Belgar með KA á komandi tímabili en á dögunum sömdu þeir við Sebastiaan Brebels.
Hendrickx er 27 ára gamall, uppalinn hjá Standard Liege í Belgíu en lék með Fortuna Sittard í Hollandi í tvö ár áður en hann kom til FH árið 2014. Hann fór þaðan á miðju tímabili 2017 og spilaði með Leixoes í Portúgal 2017-18 en kom til liðs við Breiðablik fyrir tímabilið 2018. Hann fór síðan frá Breiðabliki til Lommel sumarið 2019.