Ítalska knattspyrnufélagið Venezia tilkynnti nú í kvöld að það hefði fengið til liðs við sig Jakob Franz Pálsson, 17 ára drengjalandsliðsmann frá Þór á Akureyri.
Jakob kemur til Feneyjaliðsins í láni frá Þór og Venezia er með kauprétt á honum, samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu félagsins, en hann hefur leikið tólf leiki með meistaraflokki Þórs í 1. deild og ellefu leiki með yngri landsliðum Íslands.
Hann fer beint í unglingalið félagsins. Með aðalliði Venezia leika tveir íslenskir leikmenn, Bjarki Steinn Bjarkason og Óttar Magnús Karlsson, sem komu til Feneyja frá ÍA og Víkingi R. síðasta haust.