Vilhjálmur Kári Haraldsson hefur verið ráðinn þjálfari Íslandsmeistaraliðs Breiðabliks í knattspyrnu og tekur við starfinu af Þorsteini Halldórssyni sem á dögunum var ráðinn landsliðsþjálfari kvenna.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Breiðabliki og þar kemur einnig fram hverjir munu starfa með Vilhjálmi hjá kvennaliði Breiðabliks. Ólafur Pétursson er aðstoðar- og markmannsþjálfari, Aron Már Björnsson styrktarþjálfari og Úlfar Hinriksson tæknilegur ráðgjafi. Þeir hafa allir verið í teyminu undanfarin ár.
Þá hefur Kristrún Lilja Daðadóttir verið ráðin þjálfari kvennaliðs Augnabliks og verður Vilhjálmur henni einnig innan handar.
Fróðleikur um Vilhjálm og Kristrúnu í tilkynningu Breiðabliks:
„Vilhjálmur Kári hefur 25 ára reynslu af þjálfun karla og kvenna, bæði hjá FH og Breiðabliki. Þá hefur hann einnig starfað fyrir Knattspyrnusamband Íslands sem leiðbeinandi auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari U17 ára landsliðs kvenna. Vilhjálmur er öllum hnútum kunnugur hjá Breiðabliki, en hann þjálfaði síðast kvennalið Augnabliks. Hann hefur starfað hjá knattspyrnudeildinni síðastliðin tvö ár sem annar af yfirþjálfurum barna- og unglingaráðs með sérstaka áherslu á starfsþróunar- og þjónustumál deildarinnar. Vilhjálmur spilaði sjálfur 69 leiki fyrir Blika á árunum 1993 til 1998.
Kristrún er Blikum að góðu kunn enda spilaði hún 225 leiki fyrir félagið og skoraði 113 mörk á árunum 1986 til 2002. Kristrún hefur þjálfað í yfir 20 ár bæði í yngri flokkum og í meistaraflokki hjá Breiðablik, Þrótti og KR. Auk þess hefur hún þjálfað U17 ára landslið Íslands.“