Knattspyrnumaðurinn Ragnar Leósson er á leið heim frá Danmörku og hefur samið við Fjölnismenn um að leika með þeim næstu tvö keppnistímabil.
Ragnar er 29 ára gamall Skagamaður sem hefur komið víða við á ferlinum og lék áður með Fjölni í hálft þriðja tímabil á árunum 2013 til 2015, þar af tvö ár í úrvalsdeildinni.
Hann lék annars með ÍA til 2011, með ÍBV 2012 og 2013, og eftir Fjölnisdvölina lék Ragnar með HK, Leikni R., ÍA og Kára en fór til Danmerkur 2019 þar sem hann hefur leikið með Ringköping.
Ragnar, sem er miðjumaður, á að baki 183 deildaleiki hérlendis, þar af 60 í úrvalsdeildinni, og hefur skorað 25 mörk. Þá lék hann sextán leiki með yngri landsliðum Íslands.
Fjölnismenn leika í 1. deildinni í ár eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni síðasta haust.