Danski knattspyrnumaðurinn Martin Rauschenberg verður áfram í röðum HK en í dag tilkynnti félagið að lánssamningur við Stjörnuna varðandi hann hefði verið framlengdur út komandi keppnistímabil.
Rauschenberg er 29 ára gamall varnarmaður, uppalinn hjá Esbjerg í Danmörku, sem varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2014, sem var annað ár hans með Garðabæjarliðinu. Hann fór þaðan til Gefle og síðan Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni en sneri aftur til Stjörnunnar fyrir tímabilið 2019. Hann kom síðan til HK í láni á miðju tímabili 2020 og lék átta leiki með Kópavogsliðinu í úrvalsdeildinni.
Samtals hefur Rauschenberg leikið 61 leik í úrvalsdeildinni hér á landi og skorað tvö mörk og samtals 168 deildaleiki í Íslandi og í Svíþjóð.