Knattspyrnukonan Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir hefur skipt úr FH og yfir í Stjörnuna. Úlfa, sem leikur á miðjunni, er 19 ára gömul og uppalin hjá FH.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið þrjú tímabil með meistaraflokki FH, alls 29 deildarleiki og skorað í þeim þrjú mörk. Af þeim eru 14 leikir og eitt mark í efstu deild.
Úlfa lék fjóra leiki með FH í Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð en gat ekki komið í veg fyrir fall liðsins niður í 1. deild. Úlfa er í háskóla í Bandaríkjunum en er væntanleg til landsins áður en Íslandsmótið hefst í vor.