Fyrrverandi leikmaður Liverpool á Selfoss

Anke Preuss er komin til Selfyssinga.
Anke Preuss er komin til Selfyssinga.

Kvennalið Selfoss hefur fengið þýskan markvörð til liðs við sig fyrir keppnistímabilið í fótboltanum en Anke Preuss hefur skrifað undir samning við félagið.

Hún kemur í staðinn fyrir Kaylan Marckese frá Bandaríkjunum sem varði mark Selfyssinga á síðasta tímabili en er farin til HB Köge í Danmörku.

Preuss, sem er 29 ára gömul, er reyndur leikmaður, Hún kemur til Selfoss frá sænska úrvalsdeildarliðinu Vittsjö en 2018-2020 var hún á mála hjá Liverpool á Englandi og þar áður hjá Sunderland. Í heimalandinu hefur hún leikið með Frankfurt, Hoffenheim og Duisburg. Hún á leiki með U20 og U16 ára landsliðum Þýskalands.

„Við erum mjög spennt að fá Anke til okkar. Þetta er leikmaður með mikla og góða reynslu og á örugglega eftir að reynast okkur vel. Við höfum skoðað markvarðarmálin vel og ég er sannfærður um það að við erum að fá virkilega góðan leikmann til liðs við okkur,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í fréttatilkynningu frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert