Fær ekki leikheimild með landsliðinu

Cloé Lacasse í leik með ÍBV sumarið 2019.
Cloé Lacasse í leik með ÍBV sumarið 2019. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnukonan Cloé Lacasse er ekki gjaldgeng með íslenska kvennalandsliðinu en hún fékk íslenskan ríkisborgararétt sumarið 2019.

Þetta staðfesti Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að Cloé hafi ekki náð að uppfylla kröfur FIFA um dvalartíma á Íslandi en hún hefði þurft að dvelja samfleytt á Íslandi í fimm ár til þess að vera gjaldgeng með landsliðinu.

Cloé, sem er 27 ára gömul og fædd í Kanada, gekk til liðs við ÍBV árið 2015 og lék með liðinu til 2019 þegar hún samdi við SL Benfica í Portúgal.

Hún þarf því að dvelja hér á landi í fimm ár samfleytt til þess að fá leikheimild með landsliðinu í komandi framtíð og því ólíklegt að hún muni spila landsleik fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert