Knattspyrnusamband Íslands hefur birt þingskjöl fyrir ársþing sambandsins sem haldið verður 27. febrúar næstkomandi. Í skjölunum eru m.a. fjórar tillögur að lagabreytingu sem snúa að lengingu tímabilsins í efstu deild karla.
Stjórn KSÍ leggur til að áfram verði tólf lið í efstu deild og tvöföld umferð leikin. Á eftir tæki við úrslitakeppni og einföld umferð leikin á milli efstu sex liðanna og síðan neðstu sex.
Fram leggur til um fjölgun liða í deildinni úr tólf í fjórtán. Yrði þá áfram leikin tvöföld umferð. Fylkir vill hins vegar fækka liðum niður í tíu og leika þrefalda umferð. Þá er ÍA með enn eina tillöguna; að halda tólf liðum í deildinni en spila þrefalda umferð í stað tvöfaldrar.