Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og öryggisfulltrúi KSÍ kveðst mjög glaður yfir því að Lars Lagerbäck sé snúinn aftur í teymi íslenska karlalandsliðsins, nú sem tæknilegur ráðgjafi.
Þetta sagði hann í spjalli við Valtý Björn Valtýsson í nýjasta þætti hlaðvarpsþáttaraðar Valtýs Björns, Minni skoðun.
„Þetta voru skemmtilegar fréttir í gær, gaman að þessu. Ég þekki hann mjög vel af því að við unnum saman í mörg ár, afskaplega góður samstarfsfélagi og góður maður. Svo er hann svo ótrúlega áhugasamur um fótbolta og svo mikill fagmaður í því sem hann er að gera,“ sagði Víðir.
Hann rifjaði upp hversu miklu Lars breytti fyrir íslenska landsliðið, ekki bara á vellinum heldur einnig þegar kom að umgjörð. „Eins og Heimir [Hallgrímsson] hefur margoft sagt, hversu miklu máli það skipti að fá hann á sínum tíma inn í þetta til þess að kenna okkur ákveðna fagmennsku í kringum umgjörðina og annað, sem hefur gjörbreyst á seinni árum.“
Víðir telur að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari og Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarþjálfari muni njóta góðs af liðsinni Lars. „Þetta voru frábærar fréttir og gott fyrir Arnar og Eið að fá hann með í teymið, það hjálpar þeim af stað.“
Hann hlakkar til þess að spjalla við hann á ný, en í gegnum árin áttu þeir Lars og Víðir mörg góð spjöll. „Það verður ekki leiðinlegt að setjast niður með honum og taka eitt af okkar spjöllum. Það var alltaf mjög gaman að spjalla við hann. Við töluðum nú yfirleitt um eitthvað annað en fótbolta. Við höfðum sameiginlegan áhuga á ýmsu góðu sem hægt væri að gera fyrir samfélagið.
Hann fylgdist mjög vel með íslenska samfélaginu. Hann vissi mjög margt, ekki bara um fótboltann heldur hvað við vorum að gera. Hann las mikið af fréttum um Ísland og fylgdist vel með, og gerir það örugglega ennþá. Hann vissi alveg hvað var að gerast í pólitíkinni og alls konar,“ sagði Víðir.
Í spjallinu við Valtý ræðir Víðir einnig kórónuveirufaraldurinn, tippar á nokkra leiki og ljóstrar upp um uppáhaldslið sitt og –leikmann.
Nýjasta þáttinn af Minni skoðun með Valtý Birni má nálgast hér.