Þremur leikjum er lokið í A-deild deildabikars kvenna í knattspyrnu, Lengjubikarsins, í dag. Keflavík og Breiðablik unnu bæði stórsigra og Fylkir vann sömuleiðis öruggan sigur.
Í riðli 1 skoraði Keflavík átta mörk gegn tveimur mörkum Selfoss þegar liðin mættust í Reykjaneshöllinni. Eftir hálftíma leik voru Keflvíkingar komnir í 3:0 með tveimur mörkum frá Evu Lind Daníelsdóttur og einu frá Marín Rún Guðmundsdóttur.
Unnur Dóra Bergsdóttir minnkaði muninn fyrir Selfoss skömmu fyrir hálfleik en Keflavík svaraði með þremur mörkum á þremur mínútum, þar af voru tvö sjálfsmörk og eitt mark frá Dröfn Einarsdóttur. Staðan því 6:1 í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleiknum kom Natasha Moraa Anasi Keflvíkingum í 7:1 en Þóra Jónsdóttir minnkaði jafnharðan muninn fyrir Selfoss. Síðasta mark leiksins kom svo á 78. mínútu þegar Selfyssingar skoruðu sitt þriðja sjálfsmark í leiknum, 8:2.
Agla María með þrennu
Í riðli 2 átti Breiðablik átti ekki í neinum vandræðum með Stjörnuna þegar liðin mættust í Fífunni.
Staðan var 6:0 í hálfleik eftir tvö mörk frá Öglu Maríu Albertsdóttur, tvö mörk frá Karitas Tómasdóttur og einu frá Birtu Georgsdóttur og Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur.
Eftir rúmlega klukkutíma leik fullkomnaði Agla María svo þrennu sína í leiknum. Þar við sat og afar þægilegur sigur Blikastúlkna staðreynd, 7:0.
Í öðrum leik í riðli 2 vann Fylkir þægilegan 4:0 sigur á FH þegar liðin mættust á Würth-vellinum í Árbænum.
Mörk Fylkis í leiknum skoruðu þær Sara Dögg Ásþórsdóttir, Bryndís Arna Níelsdóttir, Katla María Þórðardóttir og Helena Ósk Hálfdánardóttir.